- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Litið um öxl í upphafi nýs árs

- Auglýsing -

Ekki er úr vegi við áramót að líta aðeins um öxl og til nýliðns árs. Þrátt fyrir kappleiki hér heima og ytra frá upphafsdögum ársins þá var stórviðburður mánaðarins tvímælalaust heimsmeistaramótið karla sem fram fór í Danmörku, Noregi og Króatíu í janúar. Íslenska landsliðið mætti til leiks og vann fimm af sex leikjum sínum en varð engu að síður að halda heim að lokinni riðlakeppninni, hársbreidd frá sæti í átta liða úrslitum. Eins og stundum áður tapaðist rangur leikur. Engan skal undra þótt landsliðsþjálfarinn hafi verið vonsvikinn í mótslok og sagði niðurstöðuna vera gremjulega.

Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Væntingar eins og venjulega

Fram undan er þátttaka íslenska landsliðsins á Evrópumótinu sem verður þriðja stórmót landsliðsins undir stjórn Snorra Steins Guðjónssonar. Eins og vanalega þá eru væntingar töluverðar til landsliðsins og svo sem ekki að ástæðulausu. Innan landsliðshópsins eru nokkrir fremstu handknattleiksmenn Evrópu og þess vegna eru vonir um góðan árangur e.t.v. ekki óeðlilegar. Um leið og þjóðin væntir góðs árangurs er einnig ljóst að pressan eykst einnig á landsliðsþjálfaranum að lánast sú kúnst að þræða liðið í gegnum einstígi stórmóts.

Einn sá besti hætti

Heimsmeistaramótið í janúar fyrir ári markaði endalok á landsliðsferli Arons Pálmarssonar, eins fremsta handknattleiksmanns heims á öldinni. Hann lék ekki fleiri landsleiki og lagði keppnisskóna á hilluna í sumar eftir að hafa skipt keppnistímabilinu niður á milli FH og ungverska meistaraliðsins One Veszprém. Aron fékk glæsilegan kveðjuleik gegn One Veszprém í Kaplakrika í lok ágúst. Viðburður sem var öllum sem að komu til mikils sóma.

Aron Pálmarsson þakkar fyrir leikinn í gegn Egyptum á HM 2024 hvar hann fór á kostum. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Á spjöld sögunnar

Kvennalið Vals skráði sig á spjöld íslenskrar handboltasögu þegar það vann Evrópubikarkeppnina eftir miðjan maí. Liðið fylgdi þar með í fótspor karlaliðs félagsins sem vann Evrópubikarkeppnina árið áður.

Sigurlið Vals var skipað metnaðarfullum leikmönnum, sönnum fyrirmyndum um hvað einurð og dugnaður getur skilað framúrskarandi árangri undir stjórn snjalls og kröfuharðs þjálfara.

Evrópubikarmeistarar Vals. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Verður vonandi hvatning

Sigur Vals í Evrópubikarkeppninni verður vonandi til þess að efla enn frekar handbolta kvenna hér á landi og veitir svo sannarlega ekki af. Breiddin í kvennahandbolta hér á landi virðist ekki hafa aukist undanfarin ár og á jafnvel undir högg að sækja hjá nokkrum félögum.

Valur vann Íslandsmeistaratitilinn og deildarmeistaratitilinn í Olísdeildinni. Haukar stóðu uppi sem sigurvegarar í bikarkeppninni í kvennaflokki eftir sigur á Fram.

Kom, sá og sigraði

Framarar komu, sáu og sigruðu á síðasta keppnistímabili í karlahandboltanum hér heima. Þeir unnu Íslandsmeistaratitilinn eftir 12 ára bið og bikarkeppnina aðeins í annað sinn nærri aldarfjórðungi eftir að fyrsti bikarmeistaratitill félagsins í karlaflokki vannst. Einar Jónsson þjálfari Fram kom saman skemmtilegu liði sem að verulegum hluta til var skipað uppöldum Frömurum.

Nýir stjórnendur

Nýir stjórnendur tóku við Handknattleikssambandi Evrópu í apríl þegar formaður og varaformaður voru kjörnir til tveggja ára. Þeir tóku við þröngu búi eftir 130 milljóna kr. tap árin 2023 og 2024. Svo virtist sem þeir væru enn að átta sig á stöðunni þegar komið var fram á haust og formaðurinn sagði stöðuna vera erfiða. Nokkuð sem var búið að liggja fyrir mánuðum saman var ekki fréttefni þegar komið var inn á veturinn.

Samstarfsaðili HSÍ til áratuga rauk út um gluggann eftir að hafa verið lítillækkaður. Morgum virtist því miður vera sama, sem er miður, því ekki bíða samstarfsaðilar við dyr skrifstofu HSÍ með fullar skjalatöskur af peningum.

Ímyndarvinna og ný merki

Rokið var ímyndarvinnu fyrir sambandið og mörg ný merki birt til að nýta við ýmis tækifæri. Sjálfsagt þarft mál en e.t.v. ekki endilega forgangsmál þar sem fjármálin voru e.t.v. aðkallandi. Nýtt merki sambandsins, sem til stendur að nota með því gamla, féll í misjafnlega frjóan jarðveg.

Ekki er annað vitað en að enn sé þröngt í búi hjá sambandinu og lítið gangi að vinna niður skuldastabbann þótt rekstur þessa árs sé nokkuð í járnum eftir því sem næst verður komist.

Það er einlæg von þess sem hér ritar að landssöfnun HSÍ, sem stendur fyrir dyrum í þessum mánuði í samstarfi fyrir samstarfsaðila, gangi framar vonum.

Framkvæmdastjórinn hætti

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ síðustu sjö ár og starfsmaður sambandsins í rúmlega 20 ár, lét af störfum að eigin ósk í haust og kvaddi sambandið í lok ársins. Við brottför Róberts hverfur dýrmæt reynsla úr herbúðum HSÍ og það e.t.v. ekki á góðum tíma.

Róbert Geir Gíslason lét af störfum framkvæmdastjóra HSÍ í árslok. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Róbert var ekki óumdeildur í framkvæmdastjórastarfinu eins og títt er um menn sem láta að sér kveða, sýna ekki vingulshátt, og hafa skýra sýn hvað gera skal.

Sá sem þetta ritar þakkar Róberti fyrir samstarfið að fornu og nýju í rúm 20 ár og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi. Þótt stundum hafi gustað í samskiptum okkar þá kom það aldrei í veg fyrir hreinskipt og góð samskipti sem seint verða fullþökkuð.

Nýr framkvæmdastjóri HSÍ, Sólveig Jónsdóttir, mætir til leiks þegar líður á þennan mánuð.

Dropinn holar steininn

Kvennalandsliðið tók þátt á HM í annað sinn í röð og var um leið með á þriðja stórmótinu í röð. Miklar breytingar hafa orðið á landsliðinu á undanförnum árum. Stundum hefur maður það á tilfinningunni að Arnar Pétursson landsliðsþjálfari hafi á síðustu árum stundum þurft að stíga eitt skref til baka fyrir hver tvö sem tekin eru fram á við. Dropinn holar steininn, segir í máltæki sem þekkt varð á skondinn hátt í sumar meðan EM kvenna í fótbolta stóð yfir. Máltækið á vel við kvennalandsliðið í handbolta og starf landsliðsþjálfarans sem sýnt hefur þolinmæði og dugnað í starfi.

Fölskavlaus fögnuðu íslensku stúlknanna eftir sigur á Færeyingum í lokaleiknum á HM 2025. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Sá hópur sem skipaði kvennalandsliðið á HM í Þýskalandi í nóvember og desember verður vonandi kjölfesta landsliðsins næstu árin. Þetta er öflugur og skemmtilegur hópur kvenna sem hefur ríkan metnað og vilja til að ná langt. Vonir standa til þess að landsliðið feti sig nær öflugri þjóðum vegna þess að forsendur eru fyrir hendi að kvennalandslið Íslands geti verið í hópi 10 til 12 bestu landsliða Evrópu. Hver segir að íslenskar konur geti ekki verið í hópi þeirra bestu í Evrópu í handbolta eins og karlmennirnir?

Gleðilegt ár 2026 – takk fyrir liðin ár.

Ívar Benediktsson, ivar@handbolti.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -