„Maður er spenntur fyrir að taka þátt í undirbúningnum og fara síðan með á EM. Ég er klár í slaginn,“ segir Andri Már Rúnarsson leikmaður HC Erlangen í Þýskalandi sem er eini stórmótanýliðinn í 18-manna EM-hópnum í handknattleik. Andri Már var í fjölmennari hóp sem valinn var til æfinga fyrir EM 2024 en féll út þegar fækkað var niður í 18-leikmenn áður farið var á mótið. Tveimur árum síðar liggur fyrir að gangi allt að óskum, þ.e. að engin meiðsli knýi á dyrnar, þá verður Andri Már með landsliðinu í Kristianstad upp úr miðjum mánuðinum þegar flautað verður til leiks á EM.
Lengi verið markmiðið
„Það hefur lengi verið markmið mitt að vera með í hópnum og taka þátt í stórmóti. Nú er komið að mér að gera mitt besta,“ sagði Andri Már sem hefur gert það gott tvö undanfarin ár í sístækkandi hlutverkum með þýsku liðunum Leipzig í fyrra og HC Erlangen í vetur.
Andri Már var kjölfesta í 21 árs landsliðinu sem vann bronsverðlaun á HM 2023.

Tveir áfangar síðasta árið
„Alveg síðan ég var krakki hef ég alið þá von í brjósti að einn góðan veðurdag kæmist maður í A-landsliðið og síðan að fara með A-landsliðinu á stórmót. Ég hef náð tveimur áföngum síðasta árið og nú er að halda áfram að ganga upp tröppurnar,“ sagði Andri Már sem lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Grikkjum í mars á síðasta ári. Eftir það hafa fjórir leikir bæst við.
Andri Már fæddist 2002 og var aðeins tveggja ára þegar faðir hans, Rúnar Sigtryggsson, lék síðast með landsliðinu á stórmóti, Ólympíuleikunum í Aþenu 2004.
Móðir Andra Más, Heiða Erlingsdóttir, var landsliðskona á sínum tíma en landsliðið bankaði ekki á dyr stórmóta á þeim tíma.
Meiðslin eru úr sögunni
Andri Már missti af tveimur síðustu leikjum ársins með HC Erlangen. Eins slæmt og það er að missa af leikjum með félagsliði þá segir Andri Már hvíldin hafi gert sér gott með tilliti til meiðslanna. Hann er nú klár í slaginn með landsliðinu og sér ekki fram á að tognin haldi honum lengur frá leikvellinum.
„Mér líður bara vel núna og býst ekki við öðru en að allt sé í góðu lagi,“ sagði Andri Már og var þar með rokinn inn á æfingu landsliðsins í Safamýri í hádeginu í dag.





