KA-maðurinn Giorgi Dikhaminjia fór hamförum og skoraði 15 mörk með landsliði Georgíu í vináttuleik við Sádi Arabíu á mánudaginn, í síðari vináttuleik þjóðanna. Leiknum lauk með jafntefli, 28:28, í Tbilisi-Arena. Georgíumenn voru marki yfir í hálfleik, 14:13. Leikurinn var liður í undirbúningi Georgíumanna fyrir þátttöku í Evrópumótinu síðar í þessum mánuði.
Tite Kalandadze landsliðsþjálfari Georgíu gat ekki stillt upp sinni allra sterkustu sveit í leiknum. Erekle Arsenashvili og stórskyttan örvhenta, Giorgi Tskhovrebadze, lágu rúmfastir í flensu. Þar að auki er fyrirliðinn Teimuraz Orjonikidze enn þá fjarri góðu gamni vegna meiðsla í leik við Grikki í undankeppni EM í maí. Þátttaka Orjonikidze á EM hefur verið afskrifuð.

Mæta Aroni í Slóveníu
Georgíumenn fara næstu daga til Slóveníu til leikja við Alsír og Kúveit en síðarnefnda liðið er undir stjórn Arons Kristjánssonar. Kúveitar eru að búa sig undir Asíumeistaramótið sem hefst 15. janúar í hafnarborginni Sabah Al-Salem í Kúveit. Fjögur efstu þjóðir mótsins, sem lýklur 29. janúar, öðlast þátttökurétt á HM í Frakklandi og Þýskalandi eftir ár.
Með á EM í annað sinn
Landslið Georgíu, sem var með íslenska landsliðinu í riðli í undankeppni EM 2026, tekur nú þátt í EM í annað sinn í röð. Að þessu sinni verða Georgíumenn í riðli með Svíum, Króötum og Hollendingum.
Fyrsta æfing Georgíumanna var í Tbilisi á laugardaginn fyrir nærri viku.



