Bjarka Má Elíssyni héldu engin bönd í kvöld þegar hann skoraði meira en helming marka Lemgo er liðið vann Dormagen, 31:28, í annarri umferð þýsku bikarkeppninnar í handknattleik. Leikið var á heimavelli Dormagen.
Bjarki Már sló upp sannkallaðri flugeldasýningu og skoraði 16 mörk í 18 skotum. Aðeins tvö marka sinna skoraði Bjarki Már úr vítaköstum. Hann hefur aldrei skorað fleiri mörk í einum leik með félagsliði sínu á ferlinum í Þýskalandi.
Andri Már Rúnarsson lék afar vel fyrir Stuttgart og skoraði sex mörk í átta tilraunum þegar Stuttgart vann 2. deildarliðið DJK Rimpar Wölfe, 34:26, á útivelli í bikarkeppninni.
Arnór Þór Gunnarsson skorað þrjú mörk í sex skotum er Bergischer vann smáliðið Varel Altjuhrden, 36:18, á útivelli í bikarkeppninni.
Leipzig – Rhein-Neckar Löwen 24:31
Ýmir Örn Gíslason lét að vanda til sín taka í vörn RN Löwen. Hann er minna með í sóknarleiknum og skoraði ekki mark.
Önnur úrslit í kvöld:
Ludwigshafen – GWD Minden 23:24.
SG Langenfeld – Hannover-Burgdorf 19:42.
Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.