„Það kom mér mjög á óvart að vera valin í æfingahópinn og ég reiknaði alls ekki með að vera í endanlegum hóp sem fór til til Svíþjóðar,“ sagði Elísa Elíasdóttir, 17 ára Vestmannaeyingur, sem er í A-landsliðshópnum sem mætir Svíum í Eskilstuna á morgun í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik.
Ásamt Elísu verður Berglind Þorsteinsdóttir úr HK nýliði í A-landsliðinu í leiknum við Svía á morgun.
Elísa á ekki langt að sækja hæfileikana á handknattleiksvellinum. Móðir hennar Ingibjörg Jónsdóttir var árum saman einn burðarása ÍBV-liðsins og síðar í þjálfarateymi meistaraflokks auk þjálfunar yngri flokka.
Elísa lék afar vel með U17 ára landsliðinu í B-riðli Evrópumótsins í sumar. Hún er línukona auk þess að vera öflug í vörninni. Þess utan hefur hún fest sig í sessi með liði ÍBV sem leikur í Olísdeildinni.
„Ég hélt að ég gæti kannski fengið tækifæri eftir tvö til þrjú ár ef ég héldi áfram að standa mig vel. Þess vegna kom það mér í opna skjöldu þegar haft var samband við mig þegar liðið var valið til æfinga fyrir leikina við Svía og Serba,“ sagði Elísa í samtali við handbolta.is sem er með íslenska landsliðinu í för í Eskilstuna.
Fer til Kolding
Elísa segir segir það hafa verið mjög góða reynslu að leika með U17 ára landsliðinu í B-riðli EM í Litáen í sumar. „Við stóðum okkur mjög vel,“ sagði Elísa sem fer rakleitt frá Eskilstuna til Kolding í Danmörku þar sem hún leikur með U18 ára landsliðinu í æfingaleik við danska landsliðið á föstudaginn. Í lok nóvember tekur U18 ára landsliðið þátt í undankeppni fyrir A-hluta næsta Evrópumóts í þessum aldursflokki.
Elísa er á öðru námsári í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum. Hún þurfti vitjanlega að sækja um frí frá veru í skólanum í þessari viku. Samt er það svo að námið er ekki langt undan. Elísa sinnir því eins og kostur er í gegnum tölvu meðan hún er á faraldsfæti með landsliðunum.
„Það alltaf brjálað að gera í skólanum svo maður verður með hugann við námið meðfram handboltanum þessa vikuna eins og áður,“ sagði hin unga landsliðskona, Elísa Elíasdóttir úr Vestmannaeyjum.
Viðureign Svíþjóðar og Íslands hefst klukkan 17 á morgun. Fylgst verður með leiknum á handbolti.is.