Forráðamenn handknattleiksliðs Þórs á Akureyri hafa ekki bitið úr nálinni vegna samnings sem þeir gerðu, reyndar með fyrirvara, við serbnesku skyttuna Vuc Perovic í sumar. Samningur sem aldrei tók gildi vegna þess að á meðan beðið var eftir tilskildum leyfum frá Vinnumálastofnun og Útlendingaeftirlitinu var forráðamönnum Þórs bent á að þeir gætu ekki teflt Perovic fram. Ástæðan var sú að Þórsarar voru og eru enn með tvo leikmenn innan sinna raða sem eru utan EES. Það er sá hámarksfjöldi sem lið mega hafa af leikmönnum sem eru ríkisborgarar landa utan EES.
Þar með varð ekkert úr komu Perovic. Formaður handknattleiksdeildar Þórs, Magnús Ingi Eggertsson, viðurkenndi á sínum tíma að hafa ekki kynnt sér reglur um komu erlendra leikmanna til landsins áður en hann gerði samninginn við Perovic. Sagði hann málið vera klúður.
Þrátt fyrir að skýrt hafi verið kveðið á um í samningi Perovic við Þór að samningurinn tæki ekki gildi ef ekki fengjust tilskilin leyfi þá krefst Perovic að fá bætur, eftir því sem handbolti.is hefur hlerað. Byggir hann kröfur sínar m.a. á að tveir mánuðir hafi liðið frá þeim tíma að skrifað var undir samninginn og þar til upp kemst að Perovic fengi ekki leikheimild frá Handknattleikssambandi Íslands til að leika með Þórsliðinu. Enda hafi Þórsurum mátt vera ljóst þegar samninguirnn var gerður að hann gæti aldrei tekið gildi vegna þess hámarksfjölda sem hvert lið má hafa af leikmönnum utan EES.
Magnús Ingi, formaður handknattleiksdeildar Þórs, sagði í samtali við handbolta.is í gær, vonast til að hægt yrði að ganga frá málum gagnvart Perovic mjög fljótlega.