Framkvæmdir eru langt komnar við nýju íþróttahöllina í Búdapest í Ungverjalandi sem íslenska landsliðið mun leika í á Evrópumeistaramóti karla í byrjun næsta árs. Rúmir tveir mánuðir eru þangað til verktakinn á að skila af sér mannvirkinu fullbúnu. Keppnishöllin verður hin glæsilegasta og fullkomnasta í alla staði og á m.a að rúma 20.022 áhorfendur í sæti.
Auk leikjanna í riðli Íslands þar sem landslið heimamanna á einnig sæti til viðbótar við landslið Portúgals og Hollands verða leikir í einum millriðli mótsins í keppnishöllinni auk leikjanna um verðlaunin á lokahelginni 28. – 30. janúar.
EM í Ungverjalandi hefst 13. janúar m.a. með viðureign Ungverja og Hollendinga í þessari glæsilegu keppnishöll. Þess má geta að Eyjamaðurinn Erlingur Richardsson er landsliðsþjálfari Hollands.
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir sem teknar voru í vikunni í keppnishöllinni þegar hún var sýnd nokkrum forsvarsmönnum þeirra landa sem senda lið til leiks á HM í janúar.