Nýr íþróttamálaráðherra, Inga Sæland, kemur til Kristianstad á morgun og verður á meðal áhorfenda á viðureign Íslands og Ungverjalands annað kvöld. Þetta hefur handbolti.is samkvæmt heimildum en gert er ráð fyrir komu ráðherrans í undirbúningi í keppnishöllinni fyrir leikinn enda ævinlega viðhöfn þegar ráðherrar og önnur fyrirmenni mæta á íþróttaviðburði.
Inga fylgir þar með í fótspor forseta Íslands, frú Höllu Tómasdóttur, sem heiðraði landsliðið með veru sinni á viðureign Íslands og Ítalíu á föstudaginn, og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra sem verið hefur á tveimur síðustu leikjum. Þorgerður Katrín á son í landsliðinu, Gísla Þorgeir Kristjánsson.
Þriðji ráðherrann á einu ári
Inga verður þriðji íþróttamálaráðherrann sem fylgir handboltalandsliðunum á síðustu 12 mánuðum. Ásthildur Lóa Þórsdóttir þáverandi íþróttamálaráðherra kom á leiki karlalandsliðsins á HM í Króatíu fyrir ári. Guðmundur Ingi Kristinsson var á meðal gesta á leikjum kvennalandsliðsins á HM í Þýskalandi í lok nóvember. Guðmundur Ingi lét af störfum á dögunum og Inga tók við.




