- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Ungverjar eru á hillunni fyrir ofan Pólverja

- Auglýsing -

„Við erum á góðum stað. Okkur líður vel eftir tvo fyrstu leikina, ekki bara vegna þess að við unnum þá, heldur vegna þess að við unnum þá á sannfærandi hátt. Nú tekur við annar alvöru leikur á móti góðu liði sem hefur mörg vopn innan sinna raða,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik í aðdraganda úrslitaleiks F-riðils í kvöld, gegn Ungverjalandi. Úrslit leiksins skera úr um hvort liðið, það íslenska eða ungverska, fer áfram í milliriðlakeppnina með tvö, eitt eða jafnvel ekkert stig.

Viðureign Íslands og Ungverjalands hefst klukkan 19.30 í Kristianstad Arena.

Ísland verður í öðrum milliriðli og leikur 23., 25., 27. og 28. janúar í Malmö Arena. Víst er að auk Ungverja verða Króatar, Svíar og Slóvenar með í riðlinum auk annaðhvort Færeyinga eða Svisslendinga. Leikjaniðurröðun liggur fyrir fljótlega eftir að leikjum verður lokið í D- og F-riðlum í kvöld.

Meiri gæði en Pólverjar

„Ungverjar hafa góðan línumann, öflugar skyttur og eru færir maður á mann auk góðs markvarðar. Á einhvern hátt er ungverska liðið ekki ósvipað að leikstíl og Pólverjar. Munurinn er sá að einstaklingsgæðin eru meiri hjá Ungverjum en Pólverjum. Ungverjar eru á hillunni fyrir ofan. Þar af leiðandi var leikurinn við Pólland á sunnudaginn ágæt generalprufa fyrir okkur. Við verðum að ná upp svipuðum, ef ekki betri leik, til þess að vinna Ungverja, það er klárt,“ segir Snorri Steinn.

Elliði Snær Viðarsson og Ýmir Örn Gíslason leggja á ráðin á æfingu í gær. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Stigin tvö er mikilvæg

Snorri Steinn segir alla vera meðvitaða um það hversu mikilvægt er að hefja keppni í milliriðli með tvö stig. „Það er líka staða sem við viljum vera í. Við verðum að taka henni fegins hendi og nýta okkur þá stöðu sem við erum komnir í. Ég skynja ekkert annað en einbeitingu og orku innan hópsins. Ég hef enga ástæðu til annars en að fara inn í leikinn við Ungverja með bjartsýni þótt vissulega sé alltaf eitthvað stress í manni. Ég losna ekki við það enda hluti af því að vera með á stórmóti.“

Allir verða að gefa í

Snorri Steinn segir stuðninginn við landsliðið hafa verið frábæran. „Nú er síðasti leikurinn í Kristianstad fram undan. Við verðum að gefa í og ég reikna með að fólk í stúkunni geri það líka.

Það er alveg einstakt að upplifa þetta. Við vitum að það er langt í frá að vera sjálfsagður hlutur að fá allan þennan stuðning. Að hluta til þá er það orkan í okkur sem magnar upp stemninguna,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -