Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórbrotinn leik í marki Íslands þegar liðið vann glæsilegan sigur á Ungverjalandi, 24:23, í lokaumferð F-riðils Evrópumóts karla í Kristianstad Arena í kvöld. Viktor Gísli varði 19 skot, 47% hlutfallsmarkvörslu. Einnig átti Gísli Þorgeir Kristjánsson stórleik og bar upp sóknarleik íslenska liðsins gegn harðsóttri vörn Ungverja.
Ísland vann þar með riðilinn með fullu húsi stiga, sex, og tekur með sér tvö mikilvæg stig í milliriðil í Malmö sem hefst á föstudaginn.
Í milliriðli mætir Ísland lærisveinum Dags Sigurðssonar í Króatíu, Svíþjóð, Slóveníu og Sviss sem komst áfram úr D-riðli á kostnað Færeyinga.
Staðan var jöfn, 14:14, í hálfleik og allan síðari hálfleik var viðureignin í járnum. Ísland náði loks tveggja marka forsktoti á síðustu mínútu þegar Viggó Kristjánsson skoraði úr vítakasti, 24:22.
Ýmir Örn Gíslason fékk rautt spjald á 33. mínútu og Elvar Örn Jónsson meiddist í fyrri hálfleik og kom ekkert meira við sögu. Óttast er að meiðsli hans séu alvarleg eins og fjallað er um hér.
Einar Þorsteinn Ólafsson steig upp úr veikindum og batt saman vörnina með Elliða Snæ Viðarssyni í síðari hálfleik í fjarveru Ýmis Arnar og Elvar Arnar. Einar Þorsteinn á stórt hrós skilið fyrir frammistöðu sína eins og Elliði Snær.

Gísli Þorgeir Kristjánsson fór fyrir íslenska liðinu í sókninni og skoraði sjö mörk ásamt því að gefa þrjár stoðsendingar.
Norður Makedóníumennirnir Dimitar Mitrevski og Blagojche Todorovski dæmdu leikinn. Virtist spennustig þeirra vera tíðum hátt enda aðeins að dæma sinn annan leik á stórmóti karla. Sennilega hefði þeim hæft léttari leikur svo snemma á stórmótaferlinum.
Mörk Íslands: Gísli Þorgeir Kristjánsson 7, Ómar Ingi Magnússon 4/3, Orri Freyr Þorkelsson 3/2, Óðinn Þór Ríkharðsson 3, Viggó Kristjánsson 2/2. Janus Daði Smárason 2, Haukur Þrastarson 1, Bjarki Már Elísson 1, Elliði Snær Viðarsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 19/1, 46,7%.
Handbolti.is er í Kristianstad Arena og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

