- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Hef góða tilfinningu fyrir síðari leiknum“

Ólafur Andrés Guðmundsson í leik með IFK Kristianstad. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Ég hef góða tilfinningu fyrir síðari leiknum þótt pólska liðið hafi á að skipa sterkum og rútíneruðum leikmönnum,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson, landsliðsmaður í handknattleik og fyrirliði sænska úrvalsdeildarliðsins IFK Kristianstad við handbolta.is í gærkvöldi eftir eins marks sigur IFK, 25:24, á pólska liðinu Pulawy í 3. umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik.


Leikurinn fór fram í Póllandi og var fyrri viðureign liðanna. Síðari leikurinn verður í Kristiandstad í næstu viku. Samanlögð úrslit leikjanna tveggja sker úr um hvort liðið tryggir sér sæti í 16-liða riðlakeppni Evrópudeildarinnar.


„Þetta var virkilega erfiður leikur eins og við áttum von á. Okkur tókst að leika flottan varnarleik en gerðum of mikið af teknískum feilum í sóknarleiknum. En eins marks sigur eru fín úrslit til að taka með okkur heim til Svíþjóðar,“ sagði Ólafur sem skoraði þrjú mörk. Teitur Örn Einarsson náði ekki að skora að þessu sinni fyrir IFK.


Pólska liðið hefur nokkra öfluga leikmenn innan sinna raða. Má þar á meðal nefna Michal Jurecki sem lék á síðasta tímbili með Flensburg en var þar áður m.a. í níu ár hjá pólska meistaraliðinu Vive Kielce. Hann skoraði fimm af mörkum Pulawy í leiknum í gær.


Kristianstad heldur heim til Svíþjóðar í dag. Ólafur sagði að ekki væri gerð krafa um sóttkví við komuna til Svíþjóðar og því héldu leikmenn bara eðlilegu lífi næstu dagana eins og ekkert hafi í skorist. Hinsvegar hafi leikmenn orðið að fara í covidpróf áður en farið var til Póllands. Það var gert að kröfu Handknattleikssambands Evrópu, EHF.

Úrslit fyrri leikja þriðju umferðar Evrópudeildarinnar er að finna hér ásamt yfirliti um það helsta hjá íslensku handknattleiksmönnum sem leika með liðum sem eiga sæti í keppninni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -