Kristján Örn Kristjánsson, Donni, er að fara í aðgerð vegna kviðslits. Frá þessu sagði félag hans, Skanderborg AGF, í gær. Af þeim sökum verður Donni frá keppni um ótiltekinn tíma. Hann hefur fundið fyrir eymslum síðan í haust en hélt engu að síður áfram að leika með liðinu allt fram að jólaleyfi.
Ekki tilbúinn í slaginn
Þegar Donni kom heim til æfinga með landsliðinu í upphafi ársins varð fljótlega ljóst að hann var ekki tilbúinn í slaginn með landsliðinu á Evrópumótinu eftir að hann hafði farið í skoðun hjá læknateymi landsliðsins. Dró Donni sig þar af leiðandi út úr landsliðinu og hélt til Danmerkur til skrafs og ráðagerða með stjórnendum danska liðsins. Loksins hefur verið ákveðið að Donni fari í aðgerð til að laga kviðslitið. Um litla aðgerð er að ræða í flestum tilfellum en nokkur tími getur liðið þar til hægt verður að æfa af fullum þunga.
Hefur skorað 99 mörk
Donni lék vel með Skanderborg á fyrri hluta tímabilsins og hafði m.a. skorað 99 mörk og gefið 41 stoðsendingu í 18 leikjum dönsku úrvalsdeildarinnar. Skanderborg er í öðru sæti dönsku deildarinnar og er auk þess komið í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar.
Donni verður ekki með á EM – dregur sig út vegna meiðsla
Talið er að Donni sé kviðslitinn



