Aron Kristjánsson stýrði landsliði Kúveit til sigurs í fyrsta leiknum í átta liða úrslitum Asíumótsins í handknattleik í gær. Mótið er undankeppni fyrir HM sem fram fer í Frakklandi og Þýskalandi eftir ár. Kúveitar lögðu íraska landsliðið örugglega í gær, 29:16, eftir að hafa verið átta mörkum yfir í hálfleik, 14:6.
Kúveita bíður erfiðari leikur í dag gegn japanska landsliðinu sem gerði jafntefli við Suður-Kóreu í gær, 23:23. Síðasti leikur Kúveita í átta liða úrslitum verður gegn Suður-Kóreu á sunnudaginn.
Aron og Kúveitar unnu allar þrjár viðureignir sínar á fyrsta stigi Asíukeppninnar. Nú standa eftir átta lið sem leika í tveimur riðlum. Tvö efstu lið hvors riðils mætast í undanúrslitum og úrslitum eftir helgi.
Asíukeppnin fer fram í Kúveit og lýkur 29. janúar. Fjórar efstu þjóðir tryggja sér farseðla á HM.


