- Auglýsing -
- Kvöldstundin í Malmö Arena í gærkvöld var sérstakt augnblik á 60 ára ævi sem ég vonandi get minnst sem lengst. Beri mér gæfa til, skal ég halla mér aftur í stól, taka skjálfhentur af mér flókaskóna, setja fæturna upp á skammel, lygna aftur augum og minnast tveggja stunda á starfsævinni; sigursins á Frökkum á HM 2007 í Magdeburg og sigurleiksins á Svíum í Malmö Arena í gærkvöld.
- Eftir rúmlega 30 ára volk með landsliðum Íslands á ýmsum stórmótum þá stendur þetta tvennt sem að framan greinir upp úr. Ég var í Svíþjóð 2002 þegar landsliðið fór í undanúrslit en það var annað vegna þess að umgjörðin var önnur. Mun landsliðið kannski endurtaka leikinn á sænskri grund og fullkomna verkið á jóskri jörð þangað sem til stóð að flytja Íslendinga á sínum tíma?
- Handboltaleikir koma og fara. Stundirnar tvær í Malmö Arena voru ekki bara handboltaleikur. Þær voru sigurstund þjóðar sem sýndi hvers hún er megnug með samstöðu.
- Ekki einatt gengu íslensku landsliðsmennirnir vasklega fram svo að helst minnti á fyrrgreinda viðureign í Magdeburg fyrir 19 árum. Með bakið komnir nærri veggnum kalda fóru þeir hamförum, hverju nafni sem þeir nefnast. Þeir lögðu Svía á þeirra heimavelli í fyrsta sinn á stórmóti og það með átta marka mun.
- Svíagrýlan hefur aldrei haldið fyrir þessum piltum vöku. Alfreð Gíslason og hans drengir á þeim tíma sáu til þess fyrir 20 árum í Laugardalshöll. Í mesta lagi hefur hin eina sanna Grýla gamla haldið vöku fyrir piltunum í barnæsku. Hún mun vera gengin á vit feðra sinna enda orðin a.m.k. 900 ára þegar um hana var ortur bragur fyrir meira en hálfri öld.
- Fyrir hrifnæman mann var ekki síður áhrifamikið að vera á meðal rúmlega 9.500 áhorfenda. Lengst af leið manni eins verandi staddur í nýju þjóðarhöllinni sem verið hefur draumórum líkust í marga áratugi. Sorgarsaga þjóðarhallarinnar fer að minna á gamlar Grýlusögur.
- Íslendingar réðu lögum og lofum innan vallar sem utan. Þrjú þúsund Íslendingar voru blákæddir í stúkunni nánast allan hringinn í Malmö Arena. Þeir voru stórkostlegir og römmuðu inn stundina. Söngvar og hvatning, bláar treyjur og treflar. Gula hafið mátti sín lítils þótt það væri stærra.
- Sérsveitin á heiður skilinn fyrir að færa stuðninginn og gleðina upp á hærra plan eins og skáldið sagði. Í Malmö Arena varð til dýnamískt samband áhorfenda og leikmanna sem skóp óskastund.
- Það voru forréttindi að vera Íslendingur í Malmö Arena í gær. Takk fyrir leikmenn og stuðningsmenn; þið sköpuðuð ómetanlega minningu fyrir a.m.k. einn kallskúnk til að ylja sér við þegar stundir líða fram.
- Gleymum því samt ekki í vímu sigursins að verkið er aðeins hálfnað eins og flest önnur verk sem hafin eru. Smiðshöggin eru eftir.
Ívar Benediktsson – [email protected]
- Auglýsing -


