- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Svíar eru með böggum hildar – sigurstund sem breyttist í martröð

- Auglýsing -

Sænskir handknattleiksunnendur eru með böggum hildar eftir tap sænska landsliðsins fyrir íslenska landsliðinu í milliriðlakeppni Evrópumótsins, 35:27. Í Dagens Nyheter segir m.a. að leikurinn sem átti að tryggja sænska landsliðinu sæti í undanúrslitum hafi orðið að martröð. Íslenska landsliðið hafi kjöldregið sænska landsliðið í fyrri hálfleik. Þótt síðari hálfleikur hafi verið betri af hálfu sænska landsliðsins hafi það ekki nægt þannig að vindur hafi verið úr mönnum er á leið.


Oscar Bergendahl, línumaður sænska landsliðsins, segist vera orðlaus enda hafi liðið ætlað sér meira en raun bar vitni um. Menn hafi ekki vitað sitt rjúkandi ráð.

Botninum náð?

Vonandi var botninum náð, segir í fyrirsögn Aftonbladet. Í sama blaði er haft eftir Magnus Wislander að landsliðið hafi vantað leikáætlun B, eitthvað sem er einnig þekkt úr gagnrýni sérfræðinga heima á Íslandi þegar landsliðinu vegnar ekki sem best.

Blessaður varnarleikurinn

Annar fyrrverandi sænskur landsliðsmaður, Martin Frändesjö, saknaði þess að engin áhersla var lögð á varnarleikinn í þeim leikhléum sem sænska landsliðið tók. Michael Apelgren landsliðsþjálfari Svía svarar m.a. því að segja að Frändesjö sé með varnarleikinn og leikhléin á heilanum.

Áfall og hrun

„Áfall fyrir Svía og algjört hrun,“ segir m.a. í fyrirsögn Expressen þar sem bætt er við: „Ísland rústaði Svíþjóð. Ekkert gekk upp.“

Ola Selby hjá Handbollskanalen segir að áður en leikurinn hófst hafi margt bent til þess að þetta yrði kvöld Íslendinganna. Stuðningsmenn íslenska landsliðsins, þótt færri væru en Svíar, hafi tekið yfir stemninguna frá fyrstu mínútu. Áfram Ísland, hafi hljómað frá upphafi og yfirgnæft sænska áhorfendur ef undan er skilinn stuttur kafli í síðari hálfleik þegar Svíar minnkuðu muninn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -