- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Menn sýndu fagmennsku“

Darri Aronsson sækir að vörn og marki Parnassos Strovolou í leiknum í gær. Mynd/Haukar Topphandbolti
- Auglýsing -

„Það var mjög gott að geta unnið fyrri leikinn með miklum mun. Þar með neyddust leikmenn Parnassos Strovolou til að auka hraðann í seinni leiknum sem hentaði okkur betur,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari karlaliðs Hauka, í samtali við handbolta.is í morgun. Haukar tryggðu sér sæti í þriðju umferð Evrópubikarkeppninnar í gær þegar þeir unnu Parnassos Strovolou frá Nikósíu á Kýpur örugglega, 37:25, og fylgdu þar með eftir 11 marka sigri á sama lið á laugardaginn, 25:14.

Þolinmæðin var til fyrirmyndar

„Leikmenn Parnassos Strovolou fengu að leika mjög langar sóknir í fyrri leiknum sem reyndi mjög á þolrifin. Okkur tókst að halda mjög vel út í vörninni og sýna þá þolinmæði sem hefur stundum skort í varnarleik okkar í leikjunum heima upp á síðkastið gegn liðum sem vilja leika langar sóknir. Það var mjög gott,“ sagði Aron sem lauk lofsorði á varnarleik sinn manna og markvörsluna en Aron Rafn Eðvarðsson var með 50% hlutfallsmarkvörslu í leiknum á laugardaginn samkvæmt tölfræði EHF. Haukar fengu aðeins á sig fimm mörk í síðari hálfleik.


„Gott forskot eftir fyrri leikinn veitti okkur gott rými fyrir þann síðari í gær sem varð þess valdandi að við gátum leyft þeim leikmönnum sem voru eitthvað tæpir að taka lítið sem ekkert þátt,“ sagði Aron en Ólafur Ægir Ólafsson lék ekkert með í síðari leiknum og Brynjólfur Snær Brynjólfsson kom lítið við sögu vegna nárameiðsla. Ólafur Ægir fékk höfuðverk eftir leikinn á laugardaginn en hann er rakinn til höfuðhöggs á æfingu.

Leikmenn og starfslið Hauka á Nikósíu í gær eftir að liðið hafði tryggt sér sæti í 3. umferð Evrópubikarkeppninnar. Mynd/Haukar Topphandbolti


„Leikurinn í gær var mjög góður hjá okkur. Fyrstu fimm eða sex mínúturnar voru slakar en eftir það þá lékum við mjög vel,“ sagði Aron og bætti við. „Menn sýndu fagmennsku.“

Krydd í tilveruna

Leikmenn Hauka eiga daginn í dag til þess að skoða sig um á Nikósíu áður en þeir fara í nótt með flugi til Lundúna. Aron sagði ferðina hafa verið góða og kærkomið fyrir leikmenn og starfsmenn að brjóta upp hversdagsleikann.

„Ferðin er krydd í tilveruna fyrir áramótin. Í dag skoðum við okkur um hér í nágrenninu í ljúfu og góðu veðri,“ sagði Aron Kristjánsson þjálfari karlaliðs Hauka í samtali við handbolta.is í morgun.


Dregið verður í þriðju umferð Evrópubikarkeppninnar þriðjudaginn 26. okótber.


Auk Hauka eru Íslandsmeistarar KA/Þórs í kvennaflokki komnir áfram áfram í þriðju umferð í Evrópbikarkeppninni kvenna. ÍBV og leikur báða leiki sína við PAOK í Grikklandi um næstu helgi.

Selfoss er með jafna stöðu eftir fyrri viðureign sína við Jeuzalem Ormoz frá Slóveníu. Selfyssinga bíður krefjandi verkefni í Slóveníu á laugardaginn.

Kvennalið Vals er fallið úr leik og FH-ingar eiga á brattann að sækja í Minsk um næstu helgi eftir átta mark tap fyrir ógnarsterku liði SKA Minsk í Kaplakrika á laugardaginn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -