- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Uppbygging, flutningur, eftirvænting, tvíburar

Ómar Ingi Magnússon leikmaður SC Magdeburg. Mynd/SC Magdeburg
- Auglýsing -

„Undirbúningstímabilið hefur verið óvenjulegt og langt. Nú er manni farið að langa til að spila,“ sagði Ómar Ingi Magnússon, handknattleiksmaður hjá Magdeburg í Þýskalandi, þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í gær.


Ómar Ingi flutti til Þýskalands í sumar eftir fjögur ár í Danmörku hvar hann lék með Århus Håndbold og síðar meistaraliðinu Aalborg Håndbold. „Fjögur ár í Danmörku var góður tími en mér fannst ég vera tilbúinn að stíga annað skref og fara í aðeins erfiðari deild og takast á við nýjar áskoranir. Nú langar mann að byrja,“ sagði Ómar Ingi.

Flutningur og tvíburar


Flutningur milli landa, nýtt lið og annað tungumál er ekki eina breytingin hjá Ómari Inga þetta sumarið. Sambýliskona Ómars Inga, Harpa Brynjarsdóttir, fæddi tvíbura í byrjun ágúst. „Það er sannarlega líf og fjör á heimilinu sem er bara skemmtilegt og til marks um nýja tíma bæði í boltanum og utan hans.“

Deildin hefst seinna en vant er


Alla jafna hefst deildarkeppnin í Þýskalandi um mánaðarmótin ágúst og september. Þetta haustið verður ekki flautað til leiks fyrr en um mánaðarmótin, rúmlega mánuði síðar en venjulega. Kórónuveirunni er um að kenna eins og í svo mörgu öðru þessa dagana og misserin. Undirbúningstímabilið hófst engu að síður í byrjun júlí eins og nokkuð hefðbundið er. Á móti kemur að leikmenn hafa öðru hverju fengið stutt frí frá æfingum. Fróðlegt verður að sjá hvernig til hefur tekist við þjálfun liðanna í Þýskalandi eftir það sem á undan er gengið

Fyrsti leikur gegn Íslendingum


Ómar Ingi horfir löngunaraugum á boltana og leikvöllinn. Dögunum fram að 1. október fækkar jafnt og þétt. Fyrsti leikur SC Magdeburg verður á heimavelli þegar Arnór Þór Gunnarsson og Ragnar Jóhannsson koma í heimsókn með samherjum sínum í Bergischer HC.


„Segja má að við höfum lítið gert annað frá 1. júlí en að æfa og búa okkur undir keppnistímabilið. Reyndar hefur öðru hvoru verið gefið frí en það er sama. Manni er farið að lengja eftir að deildarkeppnin hefjist,” sagði Ómar Ingi. „Flestar deildir í Evrópu eru komnar af stað auk Meistaradeildarinnar og Evrópumóta félagsliða,“ segir Ómar Ingi en Magdeburg slapp við forkeppni Evrópudeildarinnar og fer beint í riðlakeppninni sem hefst síðar í haust.

Lengi frá vegna höfuðhöggs

„Þessi langi undirbúningstími bætist ofan á vorið þegar keppni lauk skyndilega í mars þegar ég var nýlega kominn af stað aftur eftir að hafa jafnað mig af höfuðhögginu sem ég fékk vorið 2019,“ segir Ómar Ingi sem hefur náð fullum bata eftir höggið en hann var alveg úr leik frá því maí 2019 og fram lok janúar, byrjun febrúar er hann hóf að leika handknattleik á nýjan leik.

Tók tíma að vinna upp styrk


„Ég er orðinn góður af höfuðmeiðslunum. Ég varð að taka nærri fimm mánaða hlé frá öllum æfingum. Það má segja að ég hafi ekki hreyft mig úr sófanum allan þann tíma. Ég mátti varla fara út í gönguferðir. En ég náði fullri heilsu aftur sem skiptir öllu máli. Á móti kemur að það hafði ekki góð áhrif á líkamann að vera í svona löngu hléi frá æfingum. Þess vegna hef ég orðið að leggja mjög hart að mér við æfingar til þess að ná fyrri líkamsstyrk. Hléið gerði það einnig að verkum að ég glímdi við ýmiskonar smámeiðsli sem eru bein afleiðing af því hversu líkaminn var orðinn slappur. Það var mikil áskorun að ná sér á strik aftur og byggja upp fyrri styrk en nú er ég á góðri leið, tel mig vera kominn á par við það sem ég var fyrir höfuðhöggið eftir að hafa unnið mjög vel í mínum málum á síðustu vikum og mánuðum,“ segir Ómar Ingi.


„Það er bara hluti af því að vera íþróttamaður að koma sér í gott líkamlegt form aftur eftir að hafa orðið fyrir alvarlegum meiðslum. Þetta er bara vinna,“ segir Ómar Ingi.

Ómar Ingi Magnússon lekur í Þýskalandi í vetur. Mynd/SC Magdeburg

Sterkari deildarkeppni


Ómar Ingi lék tvö síðustu tímabil með Aalborg Håndbold sem er fremsta lið Danmerkur og hefur auk þess gert það gott í Meistaradeild Evrópu á undanförum árum. Þar af leiðandi segir hann það ekki vera mikla breytingu fyrir sig að fara úr einu góðu liði yfir í annað. Hinsvegar megi reikna með að deildarkeppnin í Þýskalandi muni reyna meira á en keppnin í Danmörku. Bæði séu leikirnir fleiri í þýsku 1.deildinni [eða úrvalsdeildinni] og andstæðingarnir, liðin, yfirhöfuð öflugri.


„Ég er spenntur fyrir nýrri áskorun hjá Magdeburg. Við erum með hörkugott lið, góða liðsfélaga og frábæran þjálfara. Þannig að ég hlakka til að byrja og spila reglulega, komast í leikrútínuna aftur.“

Fínt að hafa Gísla


Ómar Ingi er ekki einu Íslendingurinn hjá SC Magdeburg um þessar mundir. Gísli Þorgeir Kristjánsson leikur einnig með liðinu. Ferill Gísla Þorgeirs hefur verið þyrnum stráður síðustu ár en hann er kominn í frábært form að sögn Ómars Inga sem kann vel við að hafa landa sinn í liðinu og í næsta nágreinni. „Gísli er flottur. Svo er ekkert verra að hafa hann meðan ég er að komast inn í tungumálið,“ sagði Ómar Ingi Magnússon léttur í bragði í samtali við handbolta.is

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -