Hörður frá Ísafirði komst einn í efsta sæti Grill66-deild karla í handknattleik í karla með því að leggja ÍR, 37:36, í viðureign efstu liðanna tveggja í Austurbergi í dag eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik, 19:16.
Hörður hefur þar með 10 stig að loknum fimm leikjum og hefur ekki tapað stigi ennþá. ÍR er í öðru sæti með átta stig og Fjölnir í þriðja sæti, einnig með sex stig en hefur leikið einum leik færra.
ÍR-ingar voru brattari framan af leiknum í Austurbergi í dag og voru m.a. fjórum mörkum yfir um skeið. Harðarmenn unnu sig inn í leikinn þegar á leið.
Leikmenn ÍR jöfnuðu metin fljótlega í síðari hálfleik. Harðarmenn héldu þó lengst af frumkvæðinu, ekki síst fyrir stórleik Rolands Lebedevs markvarðar sem fór á kostum.
Lokakaflinn var afar spennandi. Hörður var marki yfir en ÍR tókst að jafna metin en aldrei að komast yfir, m.a. á síðustu mínútu átti liðið þess kost að jafna en allt kom fyrir ekki.
Óli Björn Vilhjálmsson skoraði 37. mark Harðar þegar 40 sekúndur voru til leiksloka. Leikmenn ÍR náðu ekki að nýta þá sókn sem þeir áttu í kjölfarið.
Spennustigið var hátt í leiknum og leikurinn á tíðum stórkallalegur. Mikið var kvartað yfir dómgæslu á báða bóga af þeim sem töldu sig svikna um eitt og annað. Spennan náði út fyrir leikvöllinn því vísa varð tveimur áhorfendum út úr húsinu níu mínútum fyrir leikslok að beiðni dómaranna sem voru ekki öfundsverðir af hlutverki sínu.
Mörk ÍR: Kristján Orri Jóhannsson 9, Dagur Sverrir Kristjánsson 8, Viktor Sigurðsson 6, Bjarki Steinn Þórisson 3, Ólafur Haukur Matthíasson 3, Eyþór Wagge 2, Arnar Freyr Guðmundsson 2, Ólafur Atli Malmquist 1, Hrannar Ingi Jóhannsson 1, Andri Heimir Friðriksson 1.
Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 9, Sigurður Ingiberg Ólafsson 5.
Mörk Harðar: Guntis Pilpuks 10, Daniel Wale Adeleye 7, Óli Björn Vilhjálmsson 5, Seguru Hikaa 5, Þráinn Ágúst Arnaldsson 5, Kenya Kasahara 3, Jón Ómar Gíslason 2.
Varin skot: Rolands Lebedevs 20.
Handbolti.is er í Austurbergi og fylgdist með framvindu leiksins í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.
Staðan í Grill66-deild karla.