- Auglýsing -
- Ein fremsta handknattleikskona samtímans, Nora Mørk, hefur samið við danska liðið Esbjerg frá og með næsta keppnistímabili. Mørk, sem stendur á þrítugu og var m.a. markahæst á EM fyrir ári, kveður þar með Evrópumeistara Vipers Kristiansand.
- Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk, bæði úr vítaköstum, þegar lið hans Bergischer, tapaði með 10 marka mun, 27:17, fyrir Wetzlar á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Bergischer er í 13. sæti deildarinnar með 10 stig eftir 12 leiki.
- Ýmir Örn Gíslason og samherjar í Rhein-Neckar Löwen gerðu jafntefli við Leipzig, 28:28, á heimavelli, einnig í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Rhein-Neckar Löwen situr í 12. sæti með 12 stig.
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson lék ekki með IFK SKövde í gærkvöld þegar liðið vann Aranäs, 32:31, á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Hann var fjarri góðu gamni vegna meiðsla. IFK Skövde er komið upp í annað sæti deildarinnar með 16 stig eftir 10 leiki eins og Kristianstad sem er í efsta sæti.
- Króatíski markvörðurinn Ivan Pesic, sem leystur var undan samningi hjá Meshkov Brest á dögunum hefur samið við Stuttgart og verður þar með liðsfélagi Andra Más Rúnarssonar og Viggós Kristjánssonar út keppnistímabilið. Næsta sumar gengur Pesic til liðs við Nantes í Frakklandi og verður markvörður liðsins ásamt Viktori Gísla Hallgrímssyni.