„Frammistaðan var svekkjandi fyrir okkur öll. Við náðum okkur því miður ekki á strik að þessu sinni sama hvar á er litið,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari U18 ára landsliðs kvenna við handbolta.is eftir 11 mark tap fyrir Serbum, 31:20, í úrslitaleik undankeppni A-deildar Evrópumótsins í Belgrad í kvöld.
Áttum því miður ekki séns
„Það vantaði ekkert upp á að stelpurnar legðu sig ekki fram í verkefnið. Stundum þá falla hlutirnir ekki með manni. Þannig var það hjá okkur í dag. Sama var hvort við lékum 5/1 vörn eða 6/0 þá var varnarleikurinn ekki góður. Fyrir vikið fengum við ekki mörg hraðaupphlaup. Við gerðum alltof mörg mistök í sóknarleiknum sem okkur var refsað fyrir með hraðaupphlaupum. Því miður þá áttum við engan séns að þessu sinni,“ sagði Ágúst Þór og var skiljanlega vonsvikinn eins og leikmenn hans.
Eru nálægt markinu
„Því miður þá náðum við okkur ekki á strik. Þegar þannig er í pottinn búið þá er erfitt að ná úrslitum á móti Serbum á heimavelli sem voru með 700 til 800 áhorfendur á bak við sig,“ sagði Ágúst Þór ennfremur. Hann lauk lofsorði á íslenska hópinn sem þrátt fyrir tapið hafi staðið sig vel og sýnt að hann er mjög nærri því að komast í A-hóp landsliða.
Stoltur af stelpunum
„Við munum halda áfram að vinna með hópnum við að taka næsta skref sem við erum svo nærri. Ég er stoltur af stelpunum með stóran hluta af leikjum mótsins. Við drögum okkar lærdóm af leikjunum þremur og höldum áfram að vinna að framförum,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari U18 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is í kvöld.