Fjórir leikmenn landsliðs Kamerún, sem nú tekur þátt í heimsmeistaramótinu í handknattleik kvenna á Spáni, stungu af frá hóteli liðsins. Ekkert hefur spurst til þeirra síðan. Þetta komst upp í fyrradag þegar 12 af 16 leikmönnum kamerúnska landsliðsins mættu í kórónuveirupróf á hóteli liðsins í Llíria.
Eftir því sem spænska dagblaðið El Pais greinir frá þá pökkuðu leikmennirnir föggum sínum niður í töskur og sögðu einhverjum samherjum frá að þeir ætluðu að freista gæfunnar á Spáni. Þeirra er leitað en óvíst er hvort lögreglan hafi erindi sem erfiði.
Landslið Kamerún var þar af leiðandi aðeins skipað 12 leikmönnum í leiknum við Usbekistan í gær í keppninni um forsetabikarinn. Virtist fjarveran ekki koma að sök því Afríkuliðið vann með 19 marka mun, 42:23.
Landslið Kamerún mætir íranska landsliðinu í lokaumferð riðils eitt í forsetabikarnum á morgun.