Landsliðsmarkvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson átti stjörnuleik í kvöld með KIF Kolding þegar liðið vann granna sína í Fredericia, 31:22, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik á heimavelli og var valinn maður leiksins annan leikinn í röð.
Ágúst Elí varði 17 skot, þar af eitt vítakast, sem gerir rúmlega 45% markvörslu. Hann var öðrum fremur maðurinn á bak við það að Kolding-liðið skildi liðsmenn Fredericia eftir í rykinu í byrjun síðari hálfleiks. Þegar leikurinn var hálfnaður var aðeins eins marks munur, 13:12, Kolding í vil.
Leikmenn Fredericia vissu ekki á köflum í leiknum hvaðan á þá stóð veðrið þegar mest gekk á hjá Ágústi Elí í marki Kolding.
Hvað eftir annað þá stöðvuðust sóknir leikmanna Fredericia í kvöld á Hafnfirðingnum vaska sem hefur leikið afar vel með Kolding á leiktíðinni en hann flutti til Jótlands frá Svíþjóð í sumar.
Ágúst lét sér ekki nægja að verja eins og berserkur heldur skoraði hann eitt mark.
Með sigrinum fluttist Kolding upp í 7. sæti. Liðið hefur nú sex stig að loknum fimm leikjum en 14 lið eru í dönsku úrvalsdeildinni.
Staðan í dönsku úrvalsdeildinni.