Þór Akureyri gerði sér lítið fyrir og lagði efsta lið Grill66-deildar karla, Hörð, með eins marks mun, 31:30, í viðureign liðanna í Höllinni á Akueyri í dag. Þetta var annað eins marks tap Harðar í röð í deildinni og hefur liðið fallið niður í annað sæti. Þórsarar eru í fjórða sæti.
Þórsarar, sem voru án þjálfara síns Stevce Alusovski að þessu sinni, voru marki undir að loknum fyrri hálfleik, 15:14.
Samkvæmt heimildum handbolta.is rann mönnum í skap eftir leikinn og mun Makedóníumaðurinn Tomislav Jagurinovski, leikmaðurin Þórs, hafa fengið rautt spjald eftir að leiknum var lokið en hann taldi sig eiga eitthvað ósagt við dómara leiksins, feðgana Bóas Börk Bóasson og Bjarka Bóasson. Eitthvað sem betur hefði verið látið kjurrt liggja.
Þetta var annar leikurinn í röð þar sem rautt spjald fer á loft eftir samskipti Þórsara við dómara. Fyrir viku fékk Alusovski rautt spjald fyrir að hóta dómurum eftir að fyrri hálfleik var lokið.
Alusovski sat ekki á sér í áhorfendastúkunni í dag og þurftu dómarar leiksins að hasta á hann oftar en einu sinni þegar þeim þótti hann gerast uppivöðslusamur eða stóryrtur.
Mörk Þórs: Tomislav Jaguronovski 12, Arnþór Þorri Þorsteinsson 6, Jóhann Einarsson 5, Viktor Jörvar Kristjánsson 3, Garðar Már Jónsson 2, Viðar Ernir Reimarsson 2, Arnór Þorri Þorsteinsson 1.
Mörk Harðar: Kenya Kasahara 7, Sigeru Hikawa 5, Axel Sveinsson 4, Guntis Pilpuks 3, Mikel Amilibia Aristi 3, Daníel Wale Adeleye 3, Jón Ómar Gíslason 3, Ásgeir Óli Kristjánsson 1, Þráinn Ágúst Arnaldsson 1.
Stöðuna og næstu leiki í Grill66-deild karla má sjá hér.