Franska stórliðið PSG er enn án stiga eftir tvo leiki í riðlakeppni Meistaradeildar karla í handknattleik. Í dag tapaði liðið fyrir Meshkov Brest, 32:21, í Brest í Hvíta-Rússlandi í A-riðli keppninnar.
PSG-liðið var alls ekki sannfærandi á köflum í leiknum og var m.a. 19:14 undir að loknum fyrri hálfleik. Varnarleikur liðsins var á tíðum í molum og markvarslan eftir því.
Brest er hinsvegar í fínum málum með fjögur stig eftir leikina þrjá. Hér fyrir neðan má sjá Stas Skube leika varnarmenn PSG grátt og skora eitt fjögurra marka sinna.
Nikita Vailpau skoraði sjö mörk fyrir Brest og Marko Painic sex. Dainis Kristopans var markahæstur hjá PSG með sjö mörk og Daninn Mikkel Hansen skoraði í sex skipti.
Ekkert lát er á sigurgöngu ungverska liðsins Veszprém sem fékk þó meiri mótspyrnu að þessu sinni en í tveimur fyrri leikjum sínum í keppninni í haust. Veszprém sótti Motor Zaporozhye heim og gerði það sem þurfti til að vinna, 37:34. Roland Erazde er sem kunnugt er aðstoðarþjálfari Motor-liðsins þar sem íþróttamaður Aftureldingar 1999, Gintaras Savukynas er aðalþjálfari.
Petar Nendic átti stórleik hjá Veszprém og skoraði 10 mörk. Rogerio Moraes Ferreira var næstur með sex mörk. Artem Kozakevych skoraði átta og var markahæstur hjá Motor. Viachaslau Bokhan og Dmytro Horiha skoruðu sex mörk hvor.
Motor rekur lestina í B-riðli ásamt Zagreb og Celje án stiga eftir þrjár umferðir. Veszprém er hinsvegar með fullt hús stiga eins og Arnór Atlason og lærisveinar í Aalborg Håndbold sem sækja Igor Vori og félaga í Zagreb heim í kvöld.
Flensburg og Porto leiða einnig saman hesta sína í Flensborg í kvöld í A-riðli.