- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þungt högg fyrir HSÍ – á þriðja tug milljóna í sóttvarnir

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Þetta er þungt fjárhagslegt högg fyrir sambandið en á móti kemur að eins og staðan er í samfélaginu þá er ekki annað forsvaranlegt en að vera með hópinn í búbblu frá fyrsta degi og þangað til farið verður á Evrópumótið. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að smit skjóti upp kollinum rétt áður en farið verður á EM,“ sagði Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands spurður um kostnað sem fylgir því að vera með leikmenn, þjálfara og starfsmenn íslenska landsliðsins í búbblu frá 2. janúar og fram að brottför til Ungverjalands 11. janúar.

Róbert vildi ekki gefa upp hver kostnaður væri en ljóst að hann er verulegur og bætist ofan á annan kostnað vegna þátttöku íslenska landsliðsins á Evrópumeistaramótinu. Um er að ræða um 30 manna hóp sem dvelur á hóteli í níu daga með fullu uppihaldi.

Ekki undir 25 milljónum

Kórónuveiran hefur sett stórt strik í reikning HSÍ á þessu ári og komið illa við reksturinn að sögn Róbert. „Kostnaður HSÍ vegna sóttvarna á þessu ári er ekki undir 25 milljónum króna. Inni í þeirri tölu er veruleg hækkun á öllum ferðakostnaði vegna veirunnar en hún hefur hækkað flugfargjöld verulega á árinu.

Þessar 25 milljónir eru eingöngu beinn kostnaður HSÍ vegna sóttvarnarráðstafana af ýmsu tagi fyrir landsliðin. Þetta er kostnaður sem aldrei hefði fallið til í venjulegu árferði,“ sagði Róbert og bendir á til samanburðar að velta HSÍ verið 249 milljónir króna árið 2020.

Ekkert smit

Öll þessi viðbótarútgjöld hafa hinsvegar skilað þeim árangri að ekki hefur komið upp eitt einasta smit hjá landsliðum HSÍ á árinu. Þau hafa staðið í ströngu allt árið og tekið þátt í mörgum alþjóðlegum kappleikjum og mótum víða um Evrópu auk æfingabúða hér heima.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -