Línumaðurinn sterki, Sveinn Jose Rivera, verður orðinn liðsmaður ÍBV áður en dagurinn er úti samkvæmt heimildum handbolta.is. Sveinn hefur undanfarið rúmt ár verið leikmaður Aftureldingar og tók m.a. þátt í þremur fyrstu leikjum liðsins í Olísdeildinni á þessari leiktíð.
Heimildir handbolta.is herma að tilkynnt verði um komu Sveins til ÍBV síðdegis eða í kvöld.
Sveinn og kona hans, sem er frá Vestmannaeyjum, keyptu íbúðarhúsnæði þar í sumar og eru flutt. Þar af leiðandi stóð ekki til að hann myndi leika mikið með Aftureldingu á keppnistímabilinu.
Sveinn er öflugur línumaður sem lék með Val um árabil og var m.a. í Íslands,- og bikarmeistaraliði Vals 2017, liði sem komst einnig í undanúrslit í Áskorendakeppni Evrópu sama vor. Síðar lék Sveinn með Gróttu hluta úr keppnistímabilinu 2017/2018 og aftur allt tímabilið 2018/2019.
Sveinn skoraði 37 mörk í 20 leikjum með Aftureldingu á síðasta keppnistímabili í Olísdeildinni og hefur þegar skorað eitt mark á þessari leiktíð.