Leikmenn íslenska landsliðsins í handknattleik halda ótrauðir áfram að búa sig undir þátttöku á Evrópumeistaramótinu í handknattleik sem hefst eftir rúma viku í Ungverjalandi og Slóvakíu. Um miðjan daginn var æfing í Víkinni þar sem 18 af 20 leikmönnum tóku þátt. Einn er enn í einangrun annar er meiddur, Sveinn Jóhannsson, og hefur orðið að draga sig út úr hópnum.
Í stað Sveins var Daníel Þór Ingason kallaður inn í hópinn en hann er ekki mættur til leiks ennþá. Áður en að því kemur verður Daníel Þór m.a. að gangast undir PCR próf.
Í hádeginu í dag varð ljóst að ekkert verður af vináttuleikjum við Litáen sem til stóð að færi fram á Ásvöllum á föstudaginn og sunnudaginn. Þess í stað verður meiri áhersla lögð á æfingar næstu daga þangað til farið verður til Búdapest á þriðjudaginn, 11. janúar.
Kjartan Vídó Ólafson, markaðsstjóri HSÍ, var með myndavélina á lofti á æfingu landsliðsins í dag en hann dvelur í búbblu með landsliðinu. Nokkrar myndanna eru hér fyrir neðan. Fjölmiðlar fá ekki aðgang að æfingum fremur en aðrir utanaðkomandi.