Ágúst Elí Björgvinsson landsliðsmarkvörður í handknattleik flytur sig um set innan Danmerkur á næsta sumri samkvæmt frétt JydskeVestkysten frá í gær. Ágúst Elí hefur síðustu tvö ár staðið í marki KIF Kolding en mun flytja sig vestar á bóginn á Jótlandi.
JydskeVestkysten hefur heimildir fyrir því að Ágúst Elí og forráðamenn Ribe Esbjerg, sem einnig leikur í dönsku úrvalsdeildinni, hafi náð samkomulagi um að Hafnfirðingurinn gangi til liðs við félagið í sumar.
Forráðamenn Ribe Esbjerg hafa leitað að eftirmanni hins gamalreynda markvarðar, Søren Rasmussen, sem ætlar að leggja skóna á hilluna í vor enda orðinn hálf fimmtugur. Hann er markvörður liðsins ásamt Kim Sonne.
Samningur Ágústs Elís við Kolding rennur út við lok leiktíðar um mitt þetta ár. Áður en Ágúst Elí fluttist til Danmerkur sumarið 2020 hafði hann leikið með Sävehof í Svíþjóð um tveggja ára skeið og m.a. orðið sænskur meistari auk þess að leika með FH hér heima frá blautu barnsbeini.
Íslendingar eru vel kynntir innan raða Ribe Esbjerg en m.a. léku þrír með liðinu á síðasta keppnistímabili, Daníel Þór Ingason, Gunnar Steinn Jónsson og Rúnar Kárason.
Ágúst Elí er einn þriggja markvarða íslenska landsliðsins sem tekur þátt í Evrópumeistaramótinu sem hefst í Ungverjalandi og Slóvakíu á fimmtudaginn í næstu viku.