Landslið Svartfellinga býr ekki á sama hóteli og hreinlega ekki í sömu borg og önnur landslið sem leika í A-riðli Evrópumótsins í handknattleik karla. Með Svartfellingum í riðli verða landslið Slóveníu og Norður Makedóníu auk heimsmeistara Dana.
Vegna smita í hópi leikmanna og starfsmanna landsliðs Svartfjallalands var ákveðið að þeir fengju ekki inni með öðrum liðum til að draga úr líkum að smit berist frá þeim yfir til annarra. Hinsvegar var ekkert hótel í Debrechen í Ungverjalandi, þar sem leikir riðilsins fara fram, sem gat hýst Svartfellinga. Fyrir vikið fengu þeir inni á hóteli sem er í 30 km fjarlægð frá keppnishöllinni. Mega þeir helst ekki fara út fyrir dyr hótelsins á milli leikja meðan ástandið innan hópsins er vafasamt vegna smita.
Eins og gefur að skilja er ekki mikil ánægja með þessa ákvörðun af hálfu Svartfellinga. Úr því sem komið er og eins og staðan er hjá þeim verða þeir að sætta sig við þetta.
Fréttamiðillinn Vijesti greinir frá þessu og segist jafnframt hafa heimildir fyrir að þrír úr svartfellska hópnum hafi greinst smitaðir við landamæraskimun í gær. Ekki liggur fyrir hvort um sé að ræða leikmenn eða starfsmenn landsliðsins.
Frakkar og Serbar lýstu í gær óánægju með lausatök í sóttvörnum á hóteli landsliða þeirra í Szeged í Ungverjalandi. Þar blandast saman hópar íþróttamanna og almennir hótelgestir sem dvelja á hótelinu. Ljóst að þær fregnir hafa orðið til þess að Handknatteikssamband Evrópu, EHF, hefur ákveðið að senda Svartfellinga út fyrir Debrechen í stað þess að reyna að hafa þá í sóttkví með öðrum liðum.
Reyndar hefur ástandið ekki verið gott hjá Serbum í aðdraganda mótsins eins og oftar en einu sinni hefur verið greint frá á handbolta.is.