„Við bíðum með eftirvæntingu eftir að geta klætt okkur í búninginn og hefja mótið eftir góðan undirbúning við ýmsar aðstæður. Nú er bara að taka á því inni á leikvellinum,“ sagði Janus Daði Smárason, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í Búdapest í dag.
Janus Daði dró ekki fjöður yfir það að væntingar væru nokkrar til góðs árangurs á mótinu. „Við eigum heima á meðal tíu bestu þjóða í heiminum, það er engin spurning. Við erum til alls líklegir enda með mannskap til að vinna hvaða lið sem er. Þess vegna erum við spenntir.
Mönnum líður vel þegar þeir leggjast á koddann á kvöldin. Nú er málið að komast inn á völlinn og láta verkin tala,“ sagði Janus Daði.
Janus Daði hefur verið talsvert frá keppni á leiktíðinni vegna meiðsla í öxl og endurhæfingar eftir aðgerð sem tók e.t.v. lengri tíma en til stóð. Hann náði nokkrum leikjum fyrir áramótin. Spurður svaraði Janus Daði að hann hafi oft verið í betra leikformi en nú en á móti komi að leikstjórnandastaðan mun væntanlega dreifast nokkuð á milli manna.
„Ég hef getað æft vel og náði fimm leikjum fyrir áramótin, þar af tveimur þar sem ég lék í fimmtíu mínútur. Ég vonast til að komast jafnt og þétt inn í leikinn og geta þannig lagt mitt lóð á vogarskálina. Annars er breiddin orðin svo mikil í hópnum að hægt er að dreifa álaginu vel á milli hvers og eins,“ sagði Janus Daði Smárason, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag.
Leikur Íslands og Portúgal á EM í handknattleik hefst í Búdapest klukkan 19.30, á morgun, föstudag.