Bjarki Már Elísson segir stöðuna í riðlinum ekki eiga að koma á óvart. Fyrirfram hafi alltaf mátt búast við að viðureignin við Ungverja yrði úrslitaleikur á einn eða annan hátt. „Nú erum við í þeirri stöðu að við verðum að ná í stig, helst að vinna, til þess að fara áfram. Ungverjar eru í svipaðri stöðu. Okkar markmið er alveg skýrt, það er að halda áfram á sigurbraut og fara taplausir inn í milliriðla,“ sagði Bjarki Már þegar handbolti.is hitti hann að máli fyrir æfingu íslenska landsliðsins í gær í MVM Dome í Búdapest.
„Markmið okkar er krefjandi en alls ekki óyfirstíganlegt. Við sáum Hollendinga vinna Ungverja í mikilli stemningu í þessari höll og hvers vegna ættum við ekki að geta gert það líka. Við teljum okkur hafa gæðin til þess að standa Ungverjum á sporði og vel það,“ sagði Bjarki Már ennfremur.
Bjarki Már segir sumt sé líkt í leik Ungverja og Portúgala sem íslenska liðið lék við í fyrstu umferð riðlakeppninnar á síðasta föstudag. Ungverska liðið hefur á að skipa stórum og þungum leikmönnum sem mikið sé leikið upp á. Bjarki Már telur að svör séu fyrir hendi innan íslenska hópsins til þess að stöðva línumennina.
„Ég tel okkur hafa talsvert meiri hraða en Ungverjarnir. Hraða okkar verðum við að nýta. Þau geta orðið eitt skarpasta vopn okkar í leiknum. Eins eru margir leikmenn í hópnum sem geta tekið ábyrgð. Breiddin hefur aukist sem er af hinu góða.
Við töluðum um það fyrir mótið að við ætlum okkur stóra hluti. Nú er komið að úrslitaleik. Staðan sem við viljum vera í og þrífast á pressunni og vinna leikinn,“ sagði Bjarki Már Elísson ákveðinn í samtali við handbolta.is í gær.
Viðureign Íslands og Ungverjalands hefst klukkan 17 í dag.