Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er á leiðinni til Ungverjalands til að styðja við bakið á íslenska landsliðinu í handknattleik í kvöld þegar það mætir Dönum í fyrstu umferð milliriðlakeppni Evrópumótsins.
Forsetinn sagði frá þessu í morgun á samfélagsmiðlum og birti m.a. þetta myndskeið.
Iceland🇮🇸@HSI_Iceland & Hungary🇭🇺@MKSZhandball fought epically on the #handball court on Tuesday. I am now headed for Budapest to support our boys at #ehfeuro2022. Áfram Ísland!#strakarnirokkar #emruv @EHFEURO pic.twitter.com/DnFoaAAFZ3
— President of Iceland (@PresidentISL) January 20, 2022
Forsetinn mætti á tvo leiki íslenska landsliðsins á EM í Svíþjóð fyrir tveimur árum.
Íslensku landsliðsstrákunum veitir ekki af öllum þeim stuðningi sem þeir eiga kost á. Eins og staðan er núna þá eru fimm leikmenn í einangrun með kórónuveiruna eftir að Aron Pálmarsson og Bjarki Már Elísson bættust í hópinn í morgun. Beðið er niðurstöðu úr PCR prófi en þeir reyndust jákvæðir á hraðprófi í morgun, eins og áður hefur verið getið.
Þrír greindust smitaðir í gær, Björgvin Páll Gústavsson, Elvar Örn Jónsson og Ólafur Andrés Guðmundsson.