Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, heiðraði íslenska landsliðið með nærveru sinni á viðureign þess við Dani á fimmtudagskvöld á Evrópumeistaramótinu í handknattleik. Forseti er ennþá í Búdapest og verður á ný á meðal áhorfenda á viðureigninni við Frakka í MVM Dome í Búdapest í kvöld.
Í samtali við handbolta.is hlakkar hann til leiksins eftir að hafa setið heima og fylgst með viðureignum riðlakeppninnar. Eins og margir aðrir hafi hann fyllst bjartsýni um að einstakur árangur gæti náðst áður en strik var sett í reikning landsliðsins.
Forseti Íslands segir ennfremur að ekki hafi verið mistök að halda Evrópumótið. Við séum komin á þann stað í baráttunni við veiruna að rétt sé að halda viðburði sem þennan. Hinsvegar sé um leið nauðsynlegt að haga nauðsynlegum sóttvörnum þannig að sem minnstar líkur séu á smitum. Þar sé og hafi verið pottur brotinn.
Handbolti.is heyrði í forseta Íslands í gær. Féllst hann góðfúslega á að svara nokkrum spurningum um handboltalandsliðið, Evrópumótið en einnig um byggingu þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir heima á Íslandi sem mikið hefur verið rætt um en lítið hefur orðið úr verki að margra mati.
Hefur þú fylgst með öllum leikjum íslenska landsliðsins til þessa?
„Já, ég var límdur við skjáinn heima í riðlakeppninni. Ég leyfði mér að vera bjartsýnn, veðjaði á að fara ekki út á leiki í þeim hluta keppninnar en bíða milliriðla og þess sem verða vill eftir það. En auðvitað vissi ég að þetta yrði alltaf erfitt og ekkert fast í hendi, samanber þegar við unnum Dani í Malmö sællar minningar á síðasta Evrópumóti og slógum þá svo illa út af laginu að þeir féllu bara úr keppni. Þá misstu allmargir frændur vorir af det hele.
Maður vissi þó af biturri reynslu að Portúgalar eru engin lömb að leika sér við og Erlingur Richardsson hefur gert lið Hollands afar öflugt. Og svo biðu Ungverjar í síðasta leik riðilsins, meistarar í að gera okkur grikk á stórmótum með 20 þúsund manns í frábærri, nýrri höll.
Laus við ófarir úr minningabankanum
Ég hef verið að spjalla við heimamenn hér og auðvitað átti að vígja hana með verðlaunum á þessu móti. En svo bara gekk allt okkur í hag. Liðið reyndist afar vel samstillt og leikmenn blómstruðu hver á fætur öðrum. Ungverjaleikurinn var auðvitað frábær. Loksins getur maður losnað við ófarirnar gegn Ungverjum á Ólympíuleikunum 2012 úr minningabankanum.
Svo dreif ég mig hingað út. Það þarf ekki að eyða orðum að því að maður hlakkaði mikið til og ég sá fyrir mér að við gætum alveg stefnt að því að komast í undanúrslit keppninnar. Við vorum að spila það vel og Patti, annar bræðra minna sem ég hef alla mína handboltavisku frá, fullvissaði mig um að það væri alls ekki út í hött. En svo gerðist svolítið.“
Ekki mistök að halda mótið
Veirupestin hefur svo sannarlega sett stórt strik í reikning allra. Kann að vera að það hafi vera mistök að halda mótið eða gæta ekki enn betur að sóttvörnum?
„Ég held að það hafi ekki verið mistök að halda mótið. Við erum komin á þann stað í baráttu okkar við þennan vágest að við megum og eigum að halda eins marga viðburði og telja má óhætt. En þá þarf líka að sinna sjálfsögðum sóttvörnum sem við vitum að virka. Miðað við það sem maður heyrir frá leikmönnum og starfsliði HSÍ hefði mátt gera mun betur í þeim efnum hér úti.“
Sýndu hvað í þeim býr
Mörg ný og nýleg andlit í landsliðinu hljóta að gleðja áhugamanninn?
„Já, og það var eiginlega það frábærasta við Danaleikinn. Ég viðurkenni fúslega að í aðdraganda hans bað ég ekki um meira en viðunandi úrslit, engan svakaskell. En svo komu þessir strákar inn, sem eiga ekki endilega sæti í byrjunarliðinu, og sýndu svo sannarlega hvað í þeim býr, við hliðina á reyndari köppum sem brugðust ekki heldur. Með smá heppni hefði hið ótrúlega alveg getað gerst, sigur gegn heimsmeisturunum með fullskipað lið, og við vængbrotnir.
„Féll en hélt velli“
Það er samt aldrei líklegt til árangurs í íþróttum að hafa systkinin Ef og Hefði með í hópnum. En við gerðum svo sannarlega okkar besta og megum vera stolt af því hvernig leikurinn spilaðist. Það sagði einn forystumanna evrópska handknattleikssambandsins við mig að leik loknum og var eiginlega hissa. Af hverju ertu svona hissa? sagði ég, þetta er Ísland, við gefumst ekki upp – this is Iceland, we don‘t give up. Ég var aðeins of seinn að muna hvernig þetta var orðað í Njálu en þar segir um einn kappann sem sigraði í orrustu en var svo að vísu veginn að henni lokinni: „Féll en hélt velli.“
Það á að vissu leyti um strákana okkar, nema að enginn lét lífið á vellinum og Danir tóku sigrinum drengilega, vissu að þeir voru ekki að leika við okkar sterkasta lið og máttu prísa sig sæla að landa sigri. En við töpuðum sem sagt en unnum samt. Við unnum bug á þeirri freistingu að gefast upp fyrirfram, skýla okkur á bak við afsakanir.“
Laugardalshöll er barn síns tíma
Á árangur landsliðsins ekki að vera okkur sem þjóð enn ein hvatning til að hefjast loks handa við byggingu þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir þar sem þjóðin getur komið saman utan vallar sem innan þegar lífið kemst í eðlilegri skorður?
„Svo sannarlega. Laugardalshöllin er barn síns tíma og við eigum engan annan vettvang fyrir landsleiki í handbolta og körfubolta. Auðvitað á maður margar frábærar minningar úr Höllinni, ég man þegar við krakkarnir lágum bara alveg upp við völlinn og fylgdumst með hetjum þeirra tíma, nefni bara Geir Hallsteins og enga aðra til að móðga engan.
Líklega var einn sætasti sigurinn af þeim fjölmörgu sem má rifja upp þegar við tryggðum okkur sæti á HM í einvígi við Svía árið 2006, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, töpuðum heima en unnum samt. Svo allrar sanngirni milli handboltans og körfunnar sé gætt nefni ég líka hér sigurkörfu Pálmars Sigurðssonar í Höllinni 1986 – en svo er hann jú líka faðir Arons okkar í handboltanum.
Þurfum fleiri minningar
Við sem þjóð þurfum fleiri svona minningar. Þegar rétt er á málum haldið eru íþróttir frábær leið til að láta í ljós og efla heilbrigða ættjarðarást, auðvitað án illsku og drambs, þjóðrembu og fordóma. En ég er sagnfræðingur og hef stundum sagt við kollega mína sem hafa verið að skrifa um þjóðernishyggju og slæmar afleiðingar hennar, sumar skelfilegar, að það sé eitt en allt annað að syngja þjóðsönginn með löndum sínum og gleðjast yfir góðum sigri.
Viðfangsefnið blasir við
Já, við þurfum minningar um gott gengi, góða sigra, og þannig minningar fáum við ekki ef við þurfum að leika okkar „heimaleiki“ í Björgvin eða Árósum, með fullri virðingu fyrir þeim ágætu stöðum. Þjóðarhöllin okkar er ein sú elsta í Evrópu, ef ekki sú elsta, og við leikum þar leiki á undanþágum sem endast ekki að eilífu. Auðvitað kostar það skildinginn að reisa veglega íþróttahöll en hana má nota undir ýmsa viðburði sem skila tekjum og það er nú ekki eins og ríkisvaldið hafi ekki og ætli ekki að verja fé í ýmsar fjárfrekar byggingar. Svo er það nú líka þannig að í svona 10-20 kílómetra radíus frá Bessastöðum eru a.m.k. fjórar flottar knatthallir og fleiri á leiðinni. Peningarnir eru til. Góðu fréttirnar í þessu eru þær að viðfangsefnið blasir við og ég veit að ráðherrar gera sér grein fyrir því.
Eigum þrjá þjálfara af 12
Og nú eru fleiri leikir fram undan hér úti. Ég næ Frakkaleiknum en held svo heim. Það er á þessum stórmótum sem maður sér svo vel hvað nafn Íslands er stórt í karlahandboltanum og nægir þá bara að nefna af þessum 12 liðum, sem komust áfram í keppninni, eru þrjú undir stjórn íslenskra þjálfara. Við erum líka á réttri leið kvenna megin.
Svo þurfum við bara að geta boðið krökkum heima upp á æfingar í handbolta og að sjálfsögðu í öðrum íþróttum, hafa hæfa þjálfara sem sinna öllum, óháð getu því það kemur ekki endilega í ljós fyrr en seint og síðar meir hver mun skara fram úr og hver ekki. Patti gat lítið í íþróttinni í yngstu flokkunum en bætti sig með hverju árinu sem við lékum og kepptum á herbergisganginum heima – allt sem hann gat lærði hann af mér,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í samtali við handbolta.is.