- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Það var að duga eða drepast

Elliði Snær Viðarsson fagnaði góðum sigri með Gummersbach í kvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Ég er bara alveg hreint orðlaus eftir þetta,“ sagði Elliði Snær Viðarsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is eftir átta marka magnaðan sigur íslenska landsliðsins í handknattleik á Frökkum í milliriðlakeppni EM í Búdapest, 29:21.


„Það var markmiðið að kýla þá kalda strax í byrjun og það tókst,“ sagði Elliði sem átti stórleik í vörninni auk þess sem hann lék lengst af á línunni í sókninni.


„Við trúðum því frá upphafi að við gætum unnið Frakka ef allt gengi upp hjá okkur. Markmið okkar er og hefur verið að ná langt í mótinu. Til þess að halda draumnum lifandi var ljóst að við yrðum að vinna þennan leik. Það var að duga eða drepast að vinna þessa viðureign. Við vorum klárir í slaginn frá upphafi sem allir hafa væntanlega séð,“ sagði Eyjamaðurinn vaski.

Skiptir engu hversu margir við erum

„Hvort sem við vorum með fimm leikmenn klára í slaginn eða 55, okkar markmið var skýrt. Sigur, sigur og ekkert annað en sigur,“ sagði Elliði Snær og bætti við að allt frá því að leiknum við Dani lauk hafi menn beðið eftir þessum leik. Viljað bæta fyrir það sem miður fór í honum.

„Okkur fannst við geta unnið Dani þótt það hafi ekki tekist. Við vildum bæta upp fyrir það með því að vera klárir í bátana um leið og landfestar voru leystar,“ sagði Elliði Snær og bætti við að áhorfendur hafi verið magnaðir að þessu sinni og verið aukamaður liðsins frá fyrstu mínútu.


„Ég vil þakka öllum þeim sem komu og studdu við bakið á okkur. Við fengum hrikalega orku í gegnum fólkið í stúkunni.”

Orðnir vonlausir

Elliði Snær sagði að menn hafi verið vel undir það búnir að Frakkar reyndu hvað þeir gætu til að koma með áhlaup í upphafi síðari hálfleiks til þess að snúa við taflinu.

„Okkur tókst að leika af sömu gæðum í síðari hálfleik og þar með komust Frakkar aldrei á bragðið. Þegar á leið þá fann maður fyrir að vonleysið var byrjað að gera vart við sig. Undir lokin voru frönsku stuðningsmennirnir komnir á sveif með okkur,” sagði Elliði Snær Viðarsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is strax að leik loknum í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -