Íslands- og bikarmeistarar KA/Þór unnu öruggan sigur á Aftureldingu, 34:24, í viðureign liðanna í Olísdeild kvenna að Varmá síðdegis í dag. Eins og e.t.v. mátti eiga von á voru Íslandsmeistararnir með gott forskot frá upphafi til enda. M.a. var sjö marka munur að loknum fyrri hálfleik, 18:11.
Viðureignin átti að fara fram í gær en var slegð á frest vegna veðurs. Vegna ófærðar gekk suðurferðin hægar en vonir stóðu til í dag en loks var hægt að flauta til leiks klukkan 17. Gekk þá allt eins og í sögu. Hinsvegar er óvíst hvort KA/Þórsliðið komist til Akureyrar í kvöld. Vegagerðin hefur tilkynnt að Öxnadalsheiði verði lokað klukkan 21.30 vegna veðurs.
Viðvörun: Ákvörðun hefur verið tekin um að loka Öxnadalsheiði í síðasta lagi kl. 21:30 í kvöld en þar er nú stórhríð og lítið sem ekkert ferðaveður. Heiðin er áfram á óvissustigi og gæti lokað með litlum fyrirvara áður en kemur að lokun í kvöld. #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) January 23, 2022
Með sigrinum endurheimti KA/Þórsliðið þriðja sæti deildarinnar sem það hafði misst í hendur leikmanna Hauka. Liðin eru jöfn að stigum með þrettán hvort. KA/Þór á leik inni auk þess sem markatalan er örlítið hagstæðari en hjá Hafnarfjarðarliðinu. Fram og Valur eru sem fyrr í efstu sætunum tveimur.
Mörk Aftureldingar: Katrín Helga Davíðsdóttir 5/4, Sylvía Björt Blöndal 5, Lovísa Líf Helenudóttir 5, Susan Ines Gamboa 3, Hrafnhildur Hólm Guðnadóttir 3, Drífa Garðarsdóttir 2, Katrín Hallgrímsdóttir 1.
Varin skot: Eva Dís Sigurðardóttir 15, 30,6%.
Mörk KA/Þórs: Unnur Ómarsdóttir 7, Ásdís Guðmundsdóttir 4, Aldís Ásta Heimisdóttir 4, Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Martha Hermannsdóttir 3/3, Hildur Lilja Jónsdóttir 3, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 3, Júlía Björnsdóttir 2/1, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Sunna Katrín Hreinsdóttir 1.
Varin skot: Sunna Guðrún Pétursdóttir 11, 36,7%. Matea Lonac 0.
Stöðuna og næstu leiki í Olísdeild kvenna má sjá hér.