- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hvað ber morgundagurinn í skauti sér?

Afturelding fær Gróttu í heimsókn á Varmá í dag. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

Í erfiðleikum síðustu mánaða í rekstri handknattleiksdeilda, sem þyngdist verulega þegar kórónuveiran stakk sér niður hér á landi snemma árs og hætta varð keppni á Íslandsmótinu, var strax hafist handa við að skera niður. Ekki bara í kostnaði við leikmenn og þjálfara, heldur í hverju öðru sem sneri að útgjöldum deildanna.  Samningar við birgja voru teknir upp og í flestum tilfellum endursamið.

Einnig var lítil og jafnvel nær engin endurnýjun í leikmannahópum sumra liða í Olísdeildum karla og kvenna auk þess sem nýir samningar voru á mun lægri nótum en áður í ljósi óvissu.

Lækkun á dómarakostnaði

Einnig nefna formenn þeir sem handbolti.is var í sambandi við að þeir vildu sjá kostnað vegna leikja vera lækkaðan, þ.e. að dómarar og eftirlitsmenn lækkuðu sín laun eins og t.d. var gert í hjá Körfuknattleikssambandinu. Sú mun ekki hafa orðið raunin á vegum Handknattleikssambandsins. Leggja menn áherslu á að þessi kostnaðarliður verði endurskoðaður, ekki síst í ljósi þess að framundan virðist róðurinn ekki vera að léttast og hvenær sem keppni hefst á ný er ljóst að áfram verða miklar takmarkanir á komum áhorfenda. Tekjur af þeim verða litlar sem engar.

Aukin þjónusta

Þrátt fyrir niðurskurð hafa nokkur félög þó orðið að auka umsvif sín á einhverjum sviðum, og þá tilneydd, t.d. með vera með meira streymi í gegnum youtuberásir frá leikjum sínum til þess að koma á móts við stuðningsfólk sem heima situr og annað hvort má ekki koma á leiki eða kærir sig ekki um það vegna stöðunnar í samfélaginu.

Eins og staðan er í dag virðist ljóst að langt er í að bærilega eðlilegt ástand muni verða í þjóðfélaginu. Enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

Óvissa um sterkar tekjulindir

Veiran virðist ekki á förum þótt vonir standi vissulega ril að innan fárra vikna verði farið að rofa til. Flest félögin hafa treyst mjög á tekjur af útleigu á sölum fyrir veislur og mannfagnaði,  tekjur af herrakvöldum og uppákomum félagsfólks af margvísulegu tagi og jafnvel á sölu og skemmtunum á aðventu og í kringum áramót. Og ekki má gleyma þorrablótunum sívinsælu sem hafa verið félögum einstaklega drjúg tekjulind. Það er því eðlilegt að menn hafi áhyggjur af næstu vikum og mánuðum.

Ekki ríkir aðeins óvissa um hvenær æfingar hefjast í handknattleik og hvernær leikið verður næst í íþróttahúsinum heldur hefur kórónuveira mikil áhrif á allan rekstur og starf handknattleiksliða. Mynd/Jóhannes Long

„Við höfum miklar áhyggjur af framhaldinu er varðar tekjuöflun af mannamótum og viðburðum sem er sú undirstaða sem við höfum að byggja ofan á styrki frá okkar góðu styrktaraðilum,“ sagði einn formaður handknattleiksdeildar á höfuðborgarsvæðinu við handbolta.is.

„Við munum þurfa að vera með mikið kostnaðaraðhald áfram enda virðist þessi veira ekki vera á förum. Flest íþróttafélög eru að stórum hluta rekin á tekjum af viðburðum og ef þessi viðburðir eru ekki vegna ástandsins mun rekstur íþróttafélaga þyngjast mjög. Ef ekki næst samstaða í félögum um þennan niðurskurð og traust ríkir ekki á milli þeirra sem leiða þau og svo og þjálfara og leikmanna þá verður erfitt um vik. Við búum að því að okkar leikmenn og þjálfarar sýna ástandinu skilning,“ sagði formaður handknattleiksdeildar á höfuðborgarsvæðinu.

Hvað með sjálfboðaliðastarfið?

Ef ekki horfir betur með þróun kórónuveirunnar hér á landi þegar kemur fram yfir áramótin þá virðist ljóst að það stefnir í mikið tap, meiri niðurskurð, að einhverju leyti lamaðar handknattleiksdeildir, batni ástandið ekki fljótlega á nýju ári. Hvaða áhrif það hefur á íþróttagreinina er ekki gott að segja en líklegt má telja að það verði vart til góðs. Baslið allt vegna veirunnar getur einnig orðið til að draga úr þrótti sjálfboðaliðastarfs innan félaganna. Sjálfboðaliðastarfið er hryggjarstykkið sem allt hvílir á þegar öllu er á botninn hvolft.

Fyrri greinar handbolta.is um málefni handknattleiksdeilda:

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -