- Auglýsing -
- Línumaðurinn þrautreyndi, Garðar Benedikt Sigurjónsson, hefur heldur betur söðlað um og gengið til liðs við ÍBV en hann var síðast í herbúðum Vængja Júpíters í Grill66-deildinni. Garðar, sem lék lengi með Fram og síðar Stjörnunni, hefur lítið komið við sögu hjá Vængjunum það sem af er leiktíðar.
- Unglingalandsliðsmaðurinn Andri Finnsson hefur verið lánaður til Gróttu út keppnistímabilið en Andri er samningsbundinn Val.
- Logi Snædal Jónsson hefur einnig vent kvæði sínu í kross og kvatt Víking og gengið til liðs við ÍBV.
- Arnar Már Rúnarsson er orðinn liðsmaður Fjölnis á nýjan leik eftir að hafa gengið til liðs við Stjörnuna sumarið 2020. Arnar Már náði sér ekki á strik hjá Stjörnunni og ekki verið áberandi á þessari leiktíð eftir að hafa verið nokkuð með á síðasta keppnistímabili.
- KA-maðurinn Daníel Matthíasson hefur ákveðið að taka upp þráðinn í handboltanum og leika með FH. Félagaskipti hans hafa verið stimpluð í bak og fyrir á skrifstofu HSÍ eins og önnur sem getið er um hér að ofan.
Handbolti.is hefur undanfarna daga greint frá því helsta sem hefur verið að gerast á félagaskiptamarkaðnum sem var lokað á miðnætti 31. janúar.
- Auglýsing -