- Auglýsing -
Ríkjandi bikarmeistarar H71 mæta Íslendingaliðinu Neistanum í úrslitum bikarkeppninnar í handknattleik karla á laugardaginn. H71 vann VÍF frá Vestmanna öðru sinni í undanúrslitum í gær, 27:23, og samanlagt með 13 marka munu, 60:47. Undanúrslitaleikir færeysku bikarkeppninnar fara fram heima og að heiman.
Eins og handbolti.is sagði frá á laugardagskvöld þá tryggði Ágúst Ingi Óskarsson liði Neistans sæti í úrslitum bikarkeppninnar þegar hann skoraði sigurmark, 27:26, úr vítakasti eftir að leiktíminn var úti gegn KÍF í íþróttahöllinni í Kollafirði. Neistin komst áfram á fleiri mörkum á útivelli en liðið tapaði heimaleiknum í Höllini á Hálsi, 24:23.
Auk Ágústs er Felix Már Kjartansson leikmaður Neistans auk þess sem Arnar Gunnarsson er þjálfari liðsins. Myndskeið með sigurmarki Ágústs er finna neðst í þessari grein.
Þetta verður annað árið í röð sem Neistin og H71 mætast í úrslitum bikarkeppninnar í karlaflokki í Færeyjum. Síðarnefnda liðið vann nauman sigur á síðasta ári, 26:25. Neistin vann síðast bikarkeppnina í karlaflokki 2019.
- Auglýsing -