Norska handknatteliksliðið Drammen, sem Óskar Ólafsson leikur með, hefur hætt við för til Krasnodar í Rússlandi vegna hættu á stríð brjótist úr á milli Rússlands og Úkraínu á næstu dögum. Krasnodar er í um 250 km fjarlægð frá landamærum Rússlands og Úkraínu. Drammenliðið átti að mæta Krasnodar í Evrópubikarkeppni karla í handknattleik um helgina.
Utanríkisráðuneyti Noregs mælir gegn því að Norðmenn ferðist til slóða í nágrenni við hugsanlegt átakasvæði vegna yfirvofandi stríðshættu.
Forráðamenn Drammen buðu stjórnendum Krasnodar að leika í Moskvu í staðinn en það aftóku Rússar með öllu.
Af þessu leiðir væntanlega að Drammen fellur úr leik í Evrópubikarkeppninni þrátt fyrir 14 marka sigur á heimavelli um síðustu helgi, 37:23.
Norska handknattleikssambandið stendur við bakið á forráðamönnum Drammen og segja ekki ástæðu til að taka áhættuna af því að ferðast til hugsanlegs stríðsvæðis. Handknattleikssamband Evrópu hefur ekki sama skilning á ástandinu eftir því sem fram kemur í frétt Topphandball í Noregi.
Auk Óskars leikur hinn hálfíslenski Viktor Petersen Norberg með Drammenliðinu. Kristian Kjelling, þjálfari Drammen, segir að í stað Rússlandsferðarinnar verði í staðinn boðið upp á góða æfingahelgi.