Leikmenn sem taka þátt í Evrópumótinu í handknattleik kvenna sem fram fer í desember í Noregi og í Danmörku verða að gangast undir strangar reglur meðan þeir taka þátt í mótinu til að koma í veg fyrir smit kórónuveiru. Meðal þess sem þeim verður óheimilt er að hitta börn sín eða maka nema þá í gegnum tölvu eða síma.
Nokkuð hefur verið um það að mæður hafa getað hitt börn og maka í afmarkaðan tíma meðan á mótum stendur með heimild þjálfara eða fararstjóra hópsins. Einkum hefur þetta tíðkast á meðal Norðurlandaþjóðanna.
Einnig verða allir þátttakendur að ganga inn og út um sama inngang á þeim hótelum sem þeir búa á. Aðrir mega ekki fara um þá innganga. Reyndar verður til þess ætlast að leikmenn og þjálfarar fari ekki út af hóteli sínu nema til æfinga og leikja.
Leikmenn mega heldur ekki fara í gönguferðir út af hótelum sínum ef þeir eiga frítíma á milli leikja og æfinga. Vilji þeir fara í gönguferðir þurfa þeir að ferðast með rútu á afvikin stað þar sem helst engin er á ferli og ganga þar um í afmarkaðann tíma enda má ekki ganga lengra en sem nemur hálfum öðru til tveimur kílómetrum. Eins og venjulega þá mun hvert lið hafa yfir ráða rútu og bílstjóra.
Heimsóknir á kaffihús eða matsölustaði verða bannaðar.
Þess utan verða leikmenn reglulega kallaðir í skimun fyrir kórónaveirunni meðan þeir verða þátttakendur í mótinu. Þeir mega alls ekki hafa neitt samneyti við þá fáu áhorfendur sem verða á kappleikjum mótsins.