GOG komst í kvöld í efsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með stórsigri á Mors Thy á útivelli, 32:22, eftir að hafa verið sex mörk um yfir í hálfleik, 16:10. GOG komst þar með stigi upp fyrir Aalborg Håndbold. GOG hefur þar með 16 stig eftir níu leiki. Álaborgarliðið er stigi á eftir.
Viktor Gísli Hallgrímsson lék ekki með GOG í kvöld. Hann var ekki eins og hann átti að sér að vera í morgun, að sögn Hallgríms Jónassonar, föður hans. Fann til slappleika og fékk að sitja hjá að þessu sinni. Hinn 46 ára gamli Sören Haagen átti stórleik í marki GOG og var með ríflega 40% markvörslu. Á heildina litið lék GOG-liðið afar vel og geislaði af sjálfstrausti.
Botnlið TM Ringsted fékk sitt fyrsta stig í kvöld þegar liðið sótti Óðin Þór Ríkharðsson og samherja í TTH heim til Holstebro, 32:32. Óðinn Þór skoraði fimm mörk í leiknum úr sex tilraunum, átti eina stoðsendingu og var einu sinni vísað af leikvelli. Holstebro er í sjöunda sæti með 11 stig eftir níu leiki. Morten Jensen átti stórleik fyrir Ringsted og skoraði 14 mörk í 19 tilraunum. Þar á meðal jafnaði hann metin beint úr aukakasti af 12 metra færi þegar leiktíminn var úti.
Elvar Örn Jónsson og samherjar í Skjern þokast sífellt ofar í töflunni eftir erfiða byrjun á leiktíðinni. Skjern vann í kvöld Ágúst Elí Björgvinsson og félaga í KIF Kolding, 27:26, í Kolding í hörkuleik þar sem litlu munaði á liðunum frá upphafi til enda.
Elvar Örn skoraði fimm mörk í átta skotum, átti auk þess eina stoðsendingu og varð einu sinni að fara af leikvelli í tvær mínútur. Ágúst Elí varði níu skot í marki Kolding og var með ríflega 36% markvörslu.
Skern er í fjórða sæti með 13 stig eftir níu leiki. Kolding er fallið niður í 10. sæti af 14 liðum með átta stig og á tíu leiki að baki.