KA komst upp að hlið Aftureldingar í sjöunda til áttunda sæti Olísdeildar karla í kvöld með sautján stig eftir verðskuldaðan sigur á FH, 32:27, í KA-heimilinu. Um var að ræða síðasta leik í 17. umferð deildarinnar sem hófst í gær. Tapið kom í veg fyrir að FH næði að færast upp í annað sæti deildarinnar. Liðið er áfram í þriðja sæti, tveimur stigum og einum leik á eftir Val. FH og Valur mætast í undanúrslitum Coca Colabikarsins á miðvikudagskvöld.
Sigur KA-manna var verðskuldaður. Ef undan eru skildar allra fyrstu mínútur leiksins þá voru KA-menn með yfirhöndina allt til loka. Í hálfleik var munurinn þrjú mörk, 15:12.
Frábær varnarleikur heimamanna í rífandi góðri stemningu í KA-heimilinu reyndist FH mikil hindrun sem þeim tókst ekki að stíga yfir. KA náði ítrekað sex marka forskoti, fyrst 20:14. Muninn náði FH aldrei að vinna upp þótt eitt áhlaup þeirra hafi verið líklegt til að bera árangur áður en KA-menn tóku leikhlé og skipulögðu leik sinn upp á nýtt í stöðunni, 27:23. Þá voru rúmar sex mínútur til leiksloka.
Sigurinn er svo sannarlega gott veganesti fyrir KA-menn í undanúrslitaleikinn í Coca Cola-bikarnum sem bíður þeirra á miðvikudaginn gegn Selfossi. FH-ingar voru hinsvegar ekkert sérlega frískir og hugsanlega hefur bikarleikur á síðasta sunnudag og þriðjudag auk ferðalaga setið í leikmönnum liðsins. Alltént sýndu þeir alls ekki sitt rétta andlit, flestir hverjir.
Mörk KA: Óðinn Þór Ríkharðsson 9/4, Jón Heiðar Sigurðsson 5, Allan Norðberg 4, Jóhann Geir Sævarsson 4, Arnar Freyr Ársælsson 4, Haraldur Bolli Heimisson 2, Patrekur Stefánsson 2, Einar Birgir Stefánsson 2.
Varin skot: Bruno Bernat 9/2, 33,3% – Nicholas Satchwell 1, 10%.
Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 7/3, Ágúst Birgisson 5, Birgir Már Birgisson 4, Jakob Martin Ásgeirsson 2, Ari Magnús Þorgeirsson 2, Egill Magnússon 2, Gytis Smantauskas 2, Einar Örn Sindrason 2, Atli Steinn Arnarson 1.
Varin skot: Phil Döhler 13, 32,5% – Júlíus Freyr Bjarnason 1, 20%.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.
Stöðu og næstu leiki í Olísdeild karla má finna hér.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.