- Auglýsing -
- Ungverski markvörðurinn Martin Nagy sem lék með Val á síðasta keppnistímabili og varð m.a. Íslandsmeistari með liðinu á síðasta vori hefur framlengt samning sinn við þýska 2. deildarliðið Gummersbach til tveggja ára, til ársins 2024. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach.
- Uros Zorman, sem nýverið var ráðinn þjálfari landsliðs Slóvena í handknattleik karla, hefur ráðið Luka Zvizej sem aðstoðarmann sinn og Gorazd Skof sem markvarðaþjálfara landsliðsins. Zvizej og Skof léku með Zorman á sínum tíma með landsliði Slóvena.
- Þýska landsliðið í handknattleik karla tekur á móti færeyska landsliðinu í Kiel þegar landslið þjóðanna mætast í undankeppni heimsmeistaramótsins um miðjan apríl.
- Slóvakinn Tomáš Hlavatý hefur verið ráðinn þjálfari rússneska meistaraliðsins Rostov-Don. Hann tekur við af Svíanum Per Johansson sem leystur var undan störfum í fyrradag eftir nærri tveggja ára veru í stóli þjálfara liðsins sem hefur verið fremsta kvennalið Rússlands í handknattleik um árabil.
- Henk Groeners sem stýrt hefur þýska kvennalandsliðinu í handknattleik er hættur störfum. Groeners tók við þjálfun landsliðsins fyrir fjórum árum. Samningur hans við þýska sambandið var til loka apríl, eða fram yfir undankeppni EM. Þýska handknattleikssambandið ákvað að slíta samningnum nú þegar og fá nýjan mann að borðinu áður en að síðasta leik undankeppninnar kemur síðla í næsta mánuði. Aðeins er eftir leikur á útivelli við Grikki eftir að Hvít-Rússum var vísað úr keppni á dögunum. Grikkir eru stigi á eftir Þjóðverjum sem er í öðru sæti 3. riðils. Hollendingar eru efstir og öruggir um sæti í lokakeppni EM sem fram fer í nóvember.
- Auglýsing -