- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Liðin léku sína bestu leiki í undanúrslitum

Stefán Arnarson, þjálfari Fram ræðir við leikmenn sína. Hann hættir í vor. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Að mínu mati þá léku Fram og Valur sína bestu leiki á keppnistímabilinu í undanúrslitum á fimmtudagskvöldið, ekki síst Fram-liðið. Það var virkilega gott,“ sagði Sigurjón Friðbjörn Björnsson, fyrrverandi þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar, og spámaður handbolta.is sem leitað er til öðru sinni til að spá fyrir um úrslitaleik Coca Cola-bikars kvenna í dag þótt hann hafi ekki hitt í mark í spádómum sínum fyrir undanúrslitin.

Valur leikur í dag í 14. sinn til úrslita í bikarkeppninni. Þar hefur lið félagsins unnið í sjö skipti. Valur varð síðast bikarmeistari árið 2019, lagði þá Fram í úrslitaleik í Laugardalshöll, 24:21, á sannfærandi hátt. Fram vann Val síðast í úrslitum bikarkeppninnar árið 2011, 25:22.

Sigurára yfir Framliðinu

„Sé tekið mið af frammistöðu liðanna í undanúrslitum þá held ég að Framliðið vinni leikinn og verði bikarmeistari. Framarar voru í miklum ham og verða það væntanlega áfram. Reynslan er það mikil í liðinu að leikmenn munu koma eins innstilltir í úrslitaleikinn í dag. Vörnin var frábær á fimmtudaginn, Hafdís Renötudóttir var mögnuð í markinu, Emma Olsson fór á kostum, jafnt í vörn sem sókn. Það er stutt á milli leikja og Framliðið því líklegt til þess að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið á fimmtudagskvöld. Það var sigurára yfir Fram, liðið ætlar sér ekki að tapa enn einum titlinum. Nú á að undirstrika hvaða lið er best um þessar mundir,“ sagði Sigurjón Friðbjörn í gær.

Frá því að bikarkeppnin var sett á laggirnar í meistaraflokki kvenna árið 1976 hefur Fram leikið 23 sinnum í úrslitum með leiknum í dag. Þar hefur Fram unnið 16 úrslitaleiki. Ekkert félag hefur oftar unnið bikarinn í kvennaflokki en Fram. Síðast vann Fram bikarkeppnina 2020 með sigri á KA/Þór, 31:18, í úrslitaleik í Laugardalshöll.
Lovísa Thompson, Thea Imani Sturludóttir, Hildigunnur Einarsdóttir og Hulda Dís Þrastardóttir, leikmenn Vals. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Ekki mikill markaleikur

Sigurjón Friðbjörn á ekki von á miklum markaleik. „Mig grunar að varnarleikur og markvarsla verði í aðalhlutverki hjá báðum liðum, eins og oft vill vera í úrslitaleikjum. Ég held að það verði lítið skorað. Af því að ég var svo nærri réttum úrslitum síðast þá ætla ég að leyfa mér að skjóta á að Fram vinni, 23:21,“ sagði Sigurjón Friðbjörn léttur í bragði að vanda.


„Mig grunar að Valsliðið verði í erfiðleikum með að brjóta sterka vörn Fram á bak aftur. Valur lék að vísu vel gegn ÍBV í undanúrslitum, eflaust sinn besta leik á tímabilinu en þær verða að gera enn betur í dag ætli þær sér að brjóta Framara á bak aftur,“ sagði Sigurjón Friðbjörn Björnsson í samtali við handbolta.is.

Fram varð fyrst bikarmeistari í handknattleik kvenna árið 1976. Fram vann Ármann í framlengdum úrslitaleik, 17:15. Fyrsti sigur Valskvenna í bikarúrslitum var 1988 er liðið sigraði Stjörnuna, 25:20.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -