Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur ákveðið að fresta leik Íslands og Ísrael í undankeppni Evrópumóts karla 2022 að beiðni ísraelska handknattleikssambandsins.
Ekki hefur verið ákveðin ný dagsetning fyrir leikinn. Til stóð að leikurinn færi fram í Laugardalshöll laugardaginn 7. nóvember. Fyrir nokkru síðan hafði Handknattleikssamband Íslands samþykkt beiðni Handknattleikssambands Ísraels að víxla á heimaleikjum.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá HSÍ. Þar segir ennfremur:
„Samkvæmt tölvupósti sem barst í morgun frá EHF er þessi ákvörðun tekin vegna Covid-19 faraldursins, Ísrael eigi erfitt með að koma hingað til lands vegna ferðatakmarkanna og hættu á því að leikmenn liðsins þurfi að fara í einangrun að leik loknum.
HSÍ hefur nú þegar mótmælt þessari frestun harðlega og bíður svara frá skrifstofu EHF. Nú þegar hefur HSÍ lagt út í töluverðan kostnað vegna leiksins auk þess sem afar óljóst er hvenær og hvort hægt sé að spila leikinn. Þá má reikna með töluverðum aukakostnaði við að spila leikinn á nýrri dagsetningu.
Leik Íslands og Litháen hefur þó ekki verið frestað, sá leikur verður spilaður miðvikudaginn 4. nóvember kl. 19.45 í Laugardalshöll.“
Fyrr í dag var leik Noregs og Lettlands frestað.