Handknattleikssamband Evrópu, EHF, neitaði síðdegis beiðni Bosníumanna um að viðureign Þýskalands og Bosníu í undankeppni EM2022 í karlaflokki verði frestað.
Handknattleikssamband Bosníu óskaði í dag eftir frestun þar sem mjög hefur kvarnast úr landsliðshópnum sem á að mæta Þýskalandi í Düsseldorf á fimmtudagskvöld. Þjálfarinn, Bilal Suman, mun hafa úr tíu útileikmönnum ráða auk tveggja markvarða eins og kom fram á handbolti.is fyrr í dag. Smit kom upp innan hópsins og er ekki hægt að útiloka að fleiri leikmenn greinist smitaðir á næstu dögum.
Christian Dissinger hefur yfirgefið herbúðir þýska landsliðsins eftir að smits varð vart innan félagsliðs hans, Vardar Skopje. Dissinger var rétt mátulega kominn til Þýskalands þegar hann varð að snúa við til Skopje.