- Auglýsing -
- Viðureign Dana og Svisslendinga sem fram átti að fara í gærkvöld í Árósum í undankeppni EM í handknattleik karla var frestað um sólarhring meðan leitað var að hugsanlegu smiti í herbúðum landsliðs Sviss. Fimm leikmenn lágu undir grun eftir að þjálfari þeirra hjá Pfadi Winterthur greindist smitaður á sunnudag, tveimur dögum eftir að þeim höfðu umgengist hann í kappleik.
- Svo virðist sem þeir hafi ekki smitast. Alltént fengu þeir grænt ljós til fararinnar í gær eins og aðrir leikmenn landsliðs Sviss.
- Fanta Keita, örvhent skytta og samherji Hildigunnar Einarsdóttur hjá Bayer Leverkusen sleit krossband á hægra hné í viðureign Leverkusen og Blomberg-Lippe um síðustu helgi. Keita leikur þar af leiðandi ekki meira með Leverkusen á keppnistímabilinu. Keita er frönsk landsliðskona og lék m.a. alla sjö leiki franska landsliðsins á HM á síðasta ári og skoraði 20 mörk. Það er því ljóst að það er talsverð blóðtaka fyrir Leverkusen að missa Keita sem kom til þýska félagsins frá Aunis Handball í sumar sem leið.
- Danska handknattleiksliðið SönderjyskE, sem Sveinn Jóhannsson leikur með, hefur samið við norsku skyttuna Kristian Jakobsen Stranden til þriggja ára. Stranden leikur nú með Skövde. Hann er 23 ára gamall.
- Danska meistararliðið Esbjerg hefur framlengt samning sinn við Sanna Solberg til ársins 2024. Solberg er þrítug og leikur í stöðu vinstri hornamanns. Hún kom til Esbjerg fyrir þremur árum frá Larvik í heimalandi sínu, Noregi. Solberg á að baki 149 landsleiki fyrir Noreg og hefur orðið heims,- og Evrópumeistari. Alls hefur Solberg skoraði 36 mörk í 11 leikjum fyrir Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni á þessu keppnistímabili.
- Auglýsing -