Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmarkvörður í handknattleik og markvörður Vals fékk höfuðhögg á æfingu í fyrrakvöld. Sökum þess lék hann ekki með Val í sigurleiknum á Haukum í Olísdeildinni í gærkvöld.
Björgvin Páll segir í samtali við RÚV binda vonir við að geta tekið þátt í landsleikjunum við Austurríki í undankeppni EM sem fram fara á 13. og 16. apríl.
Afar ósennilegt er að hann geti tekið þátt í viðureign Selfoss og Vals í lokaumferð Olísdeildar karla á sunnudaginn.
Landsliðsmarkvörðurinn er undir daglegu eftirliti eftir því sem fram kemur í frétt RÚV. Endurhæfingin felst fyrst og fremst í hvíld.
Er einn af mörgum
Björgvin Páll er því miður einn af nokkrum markvörðum sem hlotið hafa höfuðhögg á síðustu dögum og vikum og glímir við afleiðingarnar um lengri eða skemmri tíma.
- Aron Rafn Eðvarðsson markvörður Hauka hefur verið frá keppni í um tvær vikur af þessum sökum. Óvíst er hvenær hann mætir til leiks á ný. Þetta var alls ekki í fyrsta sinn sem Aron Rafn fær heilahristing. Skömmu eftir að hann gekk til liðs við HSV Hamburg sumarið 2018 fékk hann afar þungt höfuðhögg og var frá æfingum og keppni um talsvert langt skeið.
- Eftir því sem næst verður komist er Sigurður Dan Óskarsson, einn markvarða Stjörnunnar einnig fjarverandi eftir höfuðhögg.
- Fyrr í vikunni sagði handbolti.is frá Söru Sif Helgadóttur markverði Vals og landsliðsins sem er úr leik um þessar mundir.
- Til viðbótar hefur Matea Lonac, markvörður Íslandsmeistara KA/Þór, orðið fyrir ítrekuðum höfuðhöggum á tímabilinu, síðast í leik við ÍBV fyrir rúmri viku. Af þeim sökum var Lonac ekki með KA/Þór í leik við HK um liðna helgi og verður væntanlega frá keppni þegar KA/Þór mætir Aftureldingu á laugardaginn.
- Adam Thorstensen markvörður Stjörnunnar er nýlega mættur út á völlinn aftur eftir fjarveru síðan fyrir áramótin vegna höfuðhöggs.
- Stutt er síðan Brynjar Darri Baldursson markvörður gaf handknattleikinn upp á bátinn eftir að hafa orðið fyrir höfuðhöggi í kappleik, og það alls ekki í fyrsta sinn.
- Brynjar Vignir Sigurjónsson markvörður Aftureldingar hefur verið fjarverandi um nokkurt skeið vegna höfuðhöggs.
- Nicholas Satchwell markvörður KA meiddist á auga fyrir nokkrum vikum og var fjarverandi um skeið. Eftir því sem næst verður komist hefur Satchwell ekki ennþá jafnað sig að fullu.
Ekki tókst eina blaðamanni handbolta.is að horfa á átta leiki gærdagsins á Íslandsmótinu frá upphafi til enda. Engu að síður sá hann tvö höfuðhögg. Annarsvegar fékk Tanja Glóey Þrastardóttir, markvörður Aftureldingar, boltann í andlitið í leik við ÍBV og Vilius Rasimas markvörður Selfoss í viðureign við KA. Óvíst er hvort höggin hafi áhrif á heilsu þeirra.
Vafalaust er upptalningin hér að ofan því miður ekki tæmandi.