„Við þurfum að mæta af fullum krafti gegn frábæru liði Svía,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í handknattleik kvenna í samtali við handbolta.is um næsta verkefni landsliðsins í undankeppni EM en annað kvöld kemur sænska landsliðið í heimsókn á Ásvelli í næst síðustu umferð 6. riðils undankeppninnar.
Frítt verður inn á leikinn í boði Icelandair á meðan húsrúm leyfir. Flautað verður til leiks á Ásvöllum klukkan 19.45. Leikmenn íslenska landsliðsins biðla til almennings að nota þetta frábæra tækifæri til þess að fylla Ásvelli öðru sinni í vikunni og mynda góða stemningu.
Ætlum að eiga góðan dag
„Íslenska liðið er stöðugt að bæta sig að mínu mati, bæði í vörn og sókn. Það er hinsvegar ljóst að við verðum að eiga okkar besta dag til þess að standa sænska liðinu á sporði. Það ætlum við okkur líka,“ sagði Arnar.
Mikilvægur áfangi að takmarkinu
Sænska landsliðið er efst í riðlinum með sex stig að loknum fjórum leikjum. Ísland og Serbía eru þar á eftir með fjögur stig hvort og ljóst að eitt af þessum þremur liðum situr eftir með sárt ennið þegar riðlakeppninni lýkur á laugardaginn.
Tvö lið tryggja sér sæti í lokakeppni EM sem fram fer í nóvember. Tyrkir, sem eiga fjórða liðið í riðlinum geta nánast afskrifað möguleika sína með tvö stig á botni riðilsins.
„Svíar eiga eitt af fimm bestu landsliðum heims í dag. Þeir hafa undirstrikað það á tvennum síðustu stórmótum. Við erum þar af leiðandi að mæta alvöru andstæðingi og þurfum að töfra fram góðan leik til að standast honum snúning,“ sagði Arnar sem hefur unnið að undirbúningi með 17 manna leikmannahópi sínum síðan á föstudaginn.
Eftirvænting og tilhlökkun
„Ég skynja ekki annað en það sé eftirvænting og tilhlökkun í hópnum okkar fyrir leikjunum sem framundan eru. Ég er sáttur við framlag leikmanna á æfingum fram til þessa,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari.
Eftir leikinn á Ásvöllum annað kvöld tekur við ferð til Zrenjanin í Serbíu á fimmtudaginn þar sem úrslitaleikur um annað sæti riðilsins, og þar af leiðandi farseðill í lokakeppni EM, bíður annað hvort íslenska eða serbneska landsliðsins.
Sem fyrr segir hefst leikurinn við Svía á Ásvöllum á morgun, miðvikudag, klukkan 19.45 verður aðgangur ókeypis í boði Icelandair.