- Auglýsing -
Aron Kristjánsson hættir þjálfun karlaliðs Hauka í vor eftir að hafa verið tvö ár í stóli þjálfara að þessu sinni. Aron staðfesti brotthvarf sitt við Vísir í dag sem hefur heimildir fyrir að Rúnar Sigtryggsson sé líklegasti arftaki Arons með Haukana.
Samkvæmt frétt Vísis hefur Aron átt í samningaviðræðum við forráðamenn landsliðs í Mið-Austurlöndum. Standa vonir til þess að botn fáist í þær viðræður á næstunni. Ekki mun vera um að ræða landslið Barein sem Aron hefur þjálfað meira og minna frá árinu 2018 með þeirri undantekningu að Halldór Jóhann Sigfússon þjálfaði það í kringum HM 2021.
Þótt Aron hætti þjálfun þá mun hann halda áfram störfum fyrir félagið tengt íþrótta- og markaðsmálum, samkvæmt fyrrgreindri frétt Vísis.
Aron var þjálfari í Danmörku um árabil, síðasta hjá meistaraliðinu Aalborg en einnig náði hann framúrskarandi árangri með Skjern og KIF Kolding Köbenhavn. Aron var landsliðsþjálfari Íslands í karlaflokki frá 2012 til 2016.
- Auglýsing -